Hafnarverðir á Dalvík voru í óða önn við að tryggja báta sem þar lágu við landfestar seinnipartinn þegar fréttastofa hætti sér niður á höfn. Ágúst Ólafsson fréttamaður ræddi við Björn Björnsson hafnarstjóra sem sagði menn eilítið brennda eftir aðventustorminn fyrir þremur árum.

Aðspurður hvort hann teldi allir þeir þrjátíu bátar sem lægju við höfn væru nú tryggðir, sagði Björn:

„Tja, bara eins og hægt er. Það er aldrei hægt að vera nógu viðbúinn, það er alltaf betra gera meira en minna. Við erum svolítið brenndir af aðventuveðrinu, sem þeir eru nú farnir að kalla það, 2019. Þannig maður reynir bara að hafa þetta eins og best verður á kosið.“

Standa vaktina en reiða sig á björgunarsveitina

Snælduvitlaust veður er nú á Dalvík eins og annars staðar á Norðurlandi eystra. Rauð veðurviðvörun er í gildi og slyddustormur.

Þannig menn eru búnir að tryggja bátana svona óvenjuvel?

„Já, já. Við reynum það nú líka, hafnarverðirnir, að tryggja þetta, bæta spottum á ef okkur sýnist illa bundið.“

Áttu von á því að menn verði hér á vaktinni á háflóði í kvöld eða nótt?

„Já! Bara eins og endranær. Björgunarsveitin, við treystum mjög á hana ef á þarf að halda.“