Haustið er tími breytinga, allt fer á stjá og tekur á rás, ætlar þú að taka þér far með vagninum eða færðu yfirhöfuð að fara með? Skáldið og pistlahöfundurinn Örn Elvar Arnarson hugleiðir haustið í pistli sínum í Víðsjá.
Örn Elvar Arnarson skrifar:
Allt er farið af stað, hjólin snúast, lestin brunar sem aldrei fyrr, vikivaki er stiginn í höfðinu dag eftir dag eftir dag, þú hugsar um grillhlíf sem fauk í einhverju af þessum veðrum af svölunum hjá þér, var það fyrir tveimur árum eða þremur? Þú ferðast með henni, þandri af ævintýraþrá, um skaut himinsins, hristir hana þar sem lífvana hún lufsast á aspargrein í huganum, á stundum skríður þú undir hana í útlegð á Kolbeinsey. Síminn er sennilega bilaður, hann hringir ekki lengur og börnin sem þú fylgir í skólann eldast um nokkur ár við það eitt að bíða eftir græna karlinum í gönguljósinu. Þú ert að bíða eftir símtali, kannski er síminn bilaður og þú segir fólki að vera ekki að hringja í þig nema að líf þess liggi við eða það þurfi start, þú vilt halda línunni auðri, ekkert múður. Laufin þau fölna á trjánum og það kemur þér ekkert á óvart lengur að þau rauðu fá þig til að hugsa um skrásett vörumerki, þetta er víst allt samkvæmt áætlun og hér er enginn óvæntur hlutur á pokasvæði. En tunglið, þetta geirneglda myndmál í ljóðum og öðrum skáldskap, er mætt á svæðið á skallanum í svörtum frakka og hver veit nema það sé með plastpoka meðferðis og einhver föt til skiptanna, gjafir handa börnunum og karton af London Docks vindlum. Það knýr dyra, setur snákaskinnsstígvél milli stafs og hurðar, það ætlar að hafa vetursetu, það ætlar að hlusta eftir símanum svo þú getir farið í sturtu, skroppið frá, fengið þér kríu. það er nýkomið með haustskipinu og þó það þurfi sjálft að baða sig færð þú að fara á undan.
Allt er farið af stað, hjólin snúast og þyrla svifryki inn á brúðkaupsmyndir sem er verið að taka undir berum himni og sólin hangir í fjallahringnum, lýtur höfði eins og yfir spilakassa, situr á fjallinu Keili sem er á hvolfi og lestin brunar sem aldrei fyrr beint úr gömlum vestra, beint úr vekjaraklukkunni, ýlfrandi af öllu afli á náttborðinu, og framkvæmir keiluskurð á morgninum. Þú kastar mæðunni eftir draumfarir sem flestar eru á þann veg að síminn sé síhringjandi en þú finnur hann hvergi, þú leitaðir í herbergi gamallar skólasystur þinnar en fannst bara mávsunga, leitaðir í hanskahólfinu á bílnum, en þar var ekkert nema hvít dúfa. Þegar þú vaknar og kíkir á símann, fullvissar þú þig um að hann virki alveg örugglega, kíkir á vefmiðlana, hugleiðir hlutskipti ríkra þjóða og snauðra, laumast í dagbók lögreglunnar, lest hugleiðingar veðurfræðings, sérð mynd af fjármálaráðherra þar sem hann var að kynna fjárlög og af myndinni að dæma er hún hans fyrsta ljóðabók, þú kannar eigið lánshæfismat og í leiðinni fullvissar þú þig með fingrafaralesaranum um að þetta sért enn þú, skimar út á flóann hver veit nema frænda þinn sé við það reka upp í fjöru, dregnar hafa verið gardínurnar frá veröldinni þá sérðu ekkert nema skemmtiferðaskip í allri sinni dýrð, á fullu stími og gott ef ekki er gámaskip þarna líka við sjónarrönd.
Allt er komið af stað, vélin mallar bara skamma hríð í lausagangi Þú ert að bíða eftir símtali og það er engu líkara en mistök hafi orðið hjá símfyrirtækinu þegar þú færðir viðskipti þín á sviði fjarskipta annað, gylliboð má segja, tálsýn, vítavert kæruleysi. Þeir hringdu að vori og spurðu hvernig þú hefðir haft það síðan þú hættir með þeim, skítt, svaraðir þú, þeir lofuðu bót og betrun, stigu í vænginn við þig, þjónustufulltrúinn var þá ekkert nema bara hillingar sem dönsuðu á gluggakistunni fyrir framan nefið þitt, og söluræðan skjall sem hann hvíslaði að þér á meðan þú rausaðir um eyðileggingarafl ástarinnar og hækkaðir í ofnunum. Verið að ræða Hubble-sjónaukann og fjárfestingarkosti í öðrum vetrarbrautum, einhver sem einhver þekkir til vinnur hjá fasteignafélagi sem ætlar að fjárfesta í þessari vetrarbraut lengst til vinstri. Þar verða hlutdeildarlán í boði, geggjaðar íbúðir, allar eins, eineggja. það er rætt um ástandið á Snæfellsjökli, að það sé ekki sjón að sjá hann, einhver vill meina að hann sé búinn að liggja í því meira og minna í allt sumar, það sést á skallanum að hann hefur drepist úti í sólinni, varð einhver annars var við að hann skrapp til Taílands?
Einhver kallar eftir æðadrippi annar stingur upp á líknandi meðferð og það strax og bætir við að það sé skylda starfsmanna Faxaflóahafna að draga gardínurnar fyrir sundin svo við þurfum ekki að horfa upp á langlegusjúkling hraka svona hratt, bætir við að það sé bara gott að það sé farið að dimma svona skarpt þá getum við gleymt okkur um stund, gleymt þessari hryggðarmynd, hverfulleikanum og setið í myrkrinu og vonað bara að einhver hringi að finkurnar hætti að afvegaleiða þig með hringtónasöng sínum en það er ekki boffs í símanum ekki orð ekki einu sinni ámátleg stuna á næturnar. Hann hringir aldrei upp úr þessu, það verður búið að selja allan eignarhlut í Íslandsbanka áður en þér verður boðið í fögnuðinn, það verður búið að kaupa allan búseturétt á öðrum vetrarbrautum á meðan þú ert enn að ákveða hvað gera skal við postulínsdúkkuna í smaragðsgræna silkikjólnum í geymslunni, þá verður þú ekki búinn að fá fondue-pottinn sem þú pantaðir, þótt þú bindir vonir við að hann sé í gámaskipinu sem þú sást fyrir skemmstu, hvort sem það var í gær eða fyrir korteri eða í síðustu viku, þessum pistli eða öðrum, þá veit maður aldrei með hluti sem lóna við sjónarrönd, hvort þeir séu að koma eða fara.
Sjálfsagt verður maður bara kominn í stokk og ekki búinn að læra að gera osta-fondue til að bjóða upp á í innflutningspartíinu, ekki búinn að velja lit á fúguna inni á baði, ekki búinn að gera upp við þig hvort nýja heimilið eigi allt að vera í alþingissalsbláum eða bara stöku fletir. Þú biður tunglið um álit þar sem það situr í sloppnum þínum á sófanum og leggur undarlegan kapal það segir að það skipti ekki máli, eina sem skipti máli sé að þú sért heillandi með vinstrigræna augnskuggann og flokksblái varaliturinn fari þér vel og vill minna á að þú eigir nú alltaf vegabréf. Þú getur ekki sofið fyrir hringdansi sem stiginn er um borð í skemmtiferðaskipi við höfnina, þú getur ekki sofið því það spretta sveppir allt í kringum þig, þú getur ekki vaknað því að það spretta af þér sveppir í svefndögginni, þú getur ekki, þú getur ekki, þú getur ekki því þú ert við það að skrifa undir með rafrænum skilríkjum, rita manifesto á macbook air, þú getur ekki sofið því þú veist ekki hvar grillhlífin er niðurkomin, hvort hún sé flækt í spöðum TF–SIF, þú getur ekki meir því byltingin byrjar eftir auglýsingar og með grillhlífinni fauk spóla sem þú manst ekki eftir í svipinn að hafa skilað fyrir löngu.
Allt er komið af stað en þú skríður í baksýnisspeglinum er ekkert nema yfirstandandi geimskot og flygildin sem fólkið tekur sér far með fara upp til himna eins og í sálmi. Enginn hringir, síminn varð eftir í vinnunni síminn varð eftir í rúminu þú skríður upp Snæfellsjökul með ekkert að vopni nema vonina, jú og vegabréf að djúpríkinu, inneignarnótu, flugfreyjutösku, bankaábyrgð og tvö til þrjú neftóbakshorn því það er aldrei að vita, þegar farið er á ókunnar slóðir hvort slíkt fáist þar, leið þín liggur guð veit hvert en sem stendur er miðju jarðar að finna á milli Vesturþúfu og Miðþúfu. Tunglið er í eftirdragi, það reykir úr munnstykki, það týndi lonníettunum sínum á leiðinni, það er í háum hælum og nælonsokkabuxum og játaði fyrir þér að hafa staðið fyrir innbrotsfaraldri í byrjun haustsins, þegar skólarnir voru að byrja og englar tóku á rás eins og það orðaði. Á þessum slóðum uppi á jökli sjá þeir Axlar-Björn og Sveinn Skotti um landamæraeftirlit, ganga úr skugga um að þú hafir ekki of óhreint mjöl í pokahorninu, þeir eru þúfurnar tvær, hæstu toppar jökulsins og þú vissir það ekki fyrr en nú, þegar hvíta hárið er fokið af hvirflinum komu þeir í ljós, það andar köldu frá þeim, þú hefur ekki séð svona menn lengi, ekki síðan þú leitaðir að grillhlífinni á Monte Carlo.