Hljómsveitin Vök sendi frá sér sína þriðju breiðskífu síðastliðinn föstudag en hún er samnefnd sveitinni og er plata vikunnar á Rás 2. Hljómur nýju plötunnar gæti verið kunnuglegur fyrir einhverja en mörg lög plötunnar hafa komið út sem sönglar og þar af leiðandi ómað í útvarpinu síðustu misseri.

Um tilurð nýju plötunnar VÖK segir Margrét Rán: „Í okkar tilviki þá kom covid á fullkomnum tíma því við vorum búin að ákveða að koma okkur fyrir í hljóðverinu, leggjast í dvala og gera plötu númer þrjú.” Eins og undanfarin ár er sveitin skipuð söngkonunni - og hljómborðsleikaranum Margréti Rán ásamt Einari Stef bassa og gítarleikara og Bergi Dagbjartssyni trommuleikara.

Margrét segir í fréttatilkynningu að ferlið við að búa til plötuna hafi verið bæði krefjandi og einmanalegt út af heimsfaraldrinum en hafi þegar upp er staðið hjálpað henni við að fara djúpt inn á við og rifja upp tímann þegar hún var að koma úr skápnum - sem varð svo yrkisefni plötunnar.

Hljómsveitin Vök er á nýju plötunni eins og fyrr í sínum draumkennda og lagskipta hljóðheimi þar sem electro- og indie-poppi er blandað saman. Þau segjast þó leitast við að brjóta formið á lagasmíðunum og leika sér með óvæntar og mótsagnakenndar hugmyndir.

Upptökur á plötunni gerðu þau sjálf í hljóðverum sveitarinnar í Hafnarfirði og Reykjavík. Vök fengu þó David Wrench til liðs við sig til að hljóðblanda plötuna en hann hefur m.a. unnið með tónlistarfólki á borð við Jungle, David Byrne, Caribou og The XX. Auk þess vann Friðfinnur Oculus við hljóðblöndun plötunnar en Glenn Schick (Phoebe Bridgers, Future) masteraði hana.

Plata vikunnar að þessu sinni er Vök með Vök og er í heild sinni í spilarara ásamt kynningum Margrétar Ránar á tilurð laganna.