Gas lekur úr rússnesku leiðslunum Nordstream eitt og tvö á dönsku og sænsku yfirráðasvæði. Forsætisráðherra Danmerkur segir málið litið mjög alvarlegum augum og að ekki sé útilokað að skemmdarverk hafi verið unnin.
Búist er við að rússnesk stjórnvöld tilkynni síðar í dag um bráðabirgðaniðurstöður kosninga um innlimun fjögurra héraða Úkraínu í Rússland. Leiðtogar vesturvelda, og fleiri, telja hana sviðsetta. Búist er við að Rússlandsforseti tilkynni innlimun héraðanna á föstudag.
Tilkynningum fer fjölgandi um tjón til Tryggingafélaga vegna aftakaveðurs sem gekk yfir landið síðustu daga. Yfirmaður hjá Sjóvá segir umfang tjónsins virðast mikið, en líklega hafi margir ekki enn komist í að meta skaðann á eigum sínum. Ríkisstjórnin fjallaði um afleiðingar stormsins fyrir austan í morgun en tók engar ákvarðanir að sinni.
Átta tré sem öll hafa náð hundrað ára aldri rifnuðu upp með rótum við bæ á Hornafirði í sjö mínutna hvelli í ofsaveðrinu á sunnudaginn. Trén eru öll um þrjátíu metra há.
Menningar- og viðskiptaráðherra hefur skipað sáttahóp innan safnageirans til að bregðast við útbreiddri gagnrýni á skipan þjóðminjavarðar. Hún fundaði með formönnum fagfélaga í gær en fundarmenn segja hana hafa harmað að hafa skipað í embættið án auglýsingar.