Lögbundnum frídögum fer fækkandi og Berglind Festival hefur þunga áhyggjur af þeirri þróun. Hún sér sig því tilneydda til að leggja verkalýðsbaráttunni lið í baráttu fyrir nýjum frídegi.

Sama hversu gaman okkur þykir í vinnu eða skóla þá er alltaf kærkomið að komast í helgarfrí. Að sama skapi elskum við öll gott sumarfrí, jólafrí og páskafrí. Stakir lögbundnir frídagar bera svo upp allt árið um kring en þeim hefur farið fækkandi. Eins og margir muna var fullveldisdagur Íslendinga, 1. desember, eitt sinn lögbundinn frídagur en svo er ekki lengur. Á lögbundnum frídögum segir Berglind Festival að ekki þurfi að vinna en launþegar fái samt borgað, sem sé æði. Hún fór á stúfana í Vikunni með Gísla Marteini í gær og leitaði svara á því hvers vegna þessi frídagur er horfinn og hvort það standi ekki til að berjast fyrir fleiri lögbundnum frídögum.  

Drífa Snædal, fráfarandi forseti ASÍ, segir verkalýðsbaráttuna aldrei sterkari en fólkið sem tekur þátt. „Ef að launafólk vill breyta þessu þá er hægt að fara og reisa þær körfur í gegnum sitt stéttarfélag.“ Berglind sér í hendi sér að það sem til þurfi sé nýr og öflugur verkalýðsleiðtogi og hún býður sig fram í baráttuna.  

Íslenskir frídagar eiga það til að vera tengdir áhrifamiklum íslenskum persónum og því telur hún tilvalið að halda í þá hefð. Þá þarf aðeins á ákveða hver eigi þann heiður skilið að afmælisdagur viðkomandi sé gerður að frídegi. „Ég held að ég myndi alltaf segja Vigdís FInnbogadóttir. Ég veit meira að segja hvenær hún á afmæli, 15. apríl,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála og vinnumarkaðsráðherra. 

Verkalýðstoganum Berglindi þykir helst til of langt í apríl banki upp á og leggur því til að afmælisdagur Bjarkar Guðmundsdóttur 21. nóvember verði gerður að frídegi eins og sjá má í innslaginu hér fyrir ofan.  

Hér er hægt að horfa á Vikuna með Gísla Marteini í spilara RÚV.