Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, segir að fara ætti varlega í alla umræðu um að almennir lögreglumenn hér á landi beri vopn, í framhaldi af mögulegri hryðjuverkaógn sem tilkynnt var um í gær að hefði verið afstýrt. Hann segist hafa vonað að atburðir eins og þessir kæmu aldrei upp hér á landi.

„Vissulega er maður sleginn eins og held ég allir. Við höfum alltaf haft það á bak við eyrað að margt sem gerist, ekki síst á Norðurlöndunum, gerist oft hér á Íslandi einhverjum árum eða áratugum síðar. Við höfum séð hvað þar hefur verið að gerast og vonast til að það kæmi aldrei til að svona hlutir gerist hér. Sem betur fer var lögreglan á tánum í þessu tilviki og brást mjög vel við. Og kom í veg fyrir að þarna yrðu unnin voðaverk,“ sagði Sigurður Ingi í viðtali við Urði Örlygsdóttur fréttamann.

Hann segir ríkisstjórnina hafa rætt málið óformlega í morgun, en lítið sé um nýjar upplýsingar. En finnst honum tilefni til að almenn lögregla hér á landi beri vopn?

„Ég held að það ættum við að fara mjög varlega í. Við eigum að reyna allt sem við mögulega getum til að viðhalda þessu góða samfélagi sem við höfum átt. En við þurfum líka að vera meðvituð. Við megum ekki ganga einföld til framtíðarinnar heldur þurfum að vera meðvituð um þær ógnir sem eru komnar. Kannski kallar það á einhverja umræðu en mér finnst ekki að við eigum að bregðast við með ákafari hætti hér og nú,“ sagði Sigurður Ingi.

Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.