Stórum áfanga var fagnað í Grímsey í vikunni, þegar fyrsta athöfnin í nýrri kirkju fór fram, ári eftir að Miðgarðakirkja brann. Sóknarpresturinn var orðlaus þegar hann sá nýju kirkjuna.

Ár frá brunanum

Það er ótrúlegt að segja það en það er ekki nema eitt ár síðan Grímseyingar vöknuðu upp við vondan draum og sáu kirkjuna sína brenna til grunna. Fólkið fór strax í að byggja nýja kirkju, hún er kannski ekki alveg fullbúin en nægilega klár í að hýsa eitt gott partý.

„Þetta er risavaxin stund“

Bygging  nýju kirkjunnar hófst í lok maí,  aðeins átta mánuðum eftir brunann. Framkvæmdir hafa gengið vel og nú þegar slétt ár er síðan hér voru rústir einar var haldin helgistund í kirkjunni. Séra Oddur Bjarni Þorkelsson, sóknarprestur í Grímsey, var hálf klökkur þegar hann sá kirkjuna. „Þetta er risavaxin stund, svona í alvöru talað.  Ég sagði það nú áðan að það kæmi ekki oft fyrir að ég yrði orðlaus en það var akkúrat þannig. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé bygginguna eftir að fer að rísa og að sjá hvað hún er lík gömlu kirkjunni en algjörlega sjálfstæð. Og að sjá þennan samtakamátt og sjá gleðina hjá öllum eyjaskeggjum og okkur öllum sem komu að þessu, þetta er mikil og stór stund.“ 

Mikill gleðidagur

Kirkjur eru þó víst ekki ókeypis. Áætlaður heildarkostnaður er 120 milljónir króna og hafa eyjaskeggjar safnað peningum allt frá því að sú eldri brann. Kirkjan var tryggð fyrir 30 milljónir og ríkissjóður styrkti verkið um 20 milljónir. Og til að klára verkefnið hefur fólk brett upp ermar og safnað. Ein þeirra er Halla Ingólfsdóttir. „Þetta er hrikalega mikill gleðidagur í dag, að sjá, eins og við vorum að tala um þarna inni áðan hvað samheldnin, hvað er hægt að gera mikið,“ segir Halla.

Nú hugsa einhverjir, þetta er bara kirkja og ég fer aldrei í kirkju nema mögulega á jólunum, þetta er miklu meira en bara kirkja fyriir ykkur Grímseyinga?

„Þetta er miklu meira en bara kirkja og við tókum líka bara eftir því þegar hún brann að það átti hana enginn en við áttum hana öll saman.“