Skotárás í miðbæ Reykjavíkur í febrúar, þar sem þrívíddarprentað skotvopn var notað, kom lögreglu á spor mannanna sem grunaðir eru um skipulagningu hryðjuverka hér á landi. Þeir eru sagðir hafa talað saman um að fremja fjöldamorð á árshátíð lögreglu í næstu viku. 

Mennirnir tveir voru í gær úrskurðaðir í viku og tveggja vikna langt gæsluvarðhald eftir umfangsmiklar aðgerðir sérsveitar ríkislögreglustjóra á miðvikudag. Heimildir fréttastofu herma að þeir hafi rætt saman um að fremja fjöldamorð á árshátíð lögreglumanna 1. október, auk þess sem Alþingi á að hafa komið við sögu. 

Látinn laus og handtekinn strax aftur

Þá hefur fréttastofa upplýsingar um að annar þeirra hafi verið handtekinn fyrir tíu dögum vegna gruns um að hafa staðið að vopnaframleiðslu og meðal annars talinn hafa framleitt byssu sem notuð var í skotárásinni í miðbæ Reykjavíkur í febrúar, þar sem karlmaður var skotinn í brjóstið. Hann var látinn sæta einangrun í eina viku en var látinn laus 20. september, einum degi áður en hann var handtekinn á nýjan leik vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka. 

„Þetta er í rauninni í framhaldi af öðru máli sem tengdist framleiðslu á vopnum,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, en vildi að öðru leyti lítið tjá sig um málið.

Verið að elta alla þræði

„Það eru enn þá hagsmunir sem við teljum okkur eiga eftir að tryggja, rannsóknarhagsmunir. Það er verið að skoða tæki, síma, tölvur og allt þetta sem tekur tíma. Og klára að elta þá þræði sem þarf að elta. Leita eftir upplýsingum frá samstarfsaðilum og þess háttar," segir Sigríður Björk. 

Mennirnir eru báðir íslenskir og á þrítugsaldri. Þeir voru handteknir í Kópavogi og í iðnaðarhúsnæði í Mosfellsbæ, þar sem skotvopnin voru geymd og framleidd með þrívíddarprenturum. Fleiri skotvopn fundust í húsleit lögreglu, sem gerð var á níu stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglumenn sem fréttastofa hefur rætt við segjast slegnir yfir málinu enda hafi ekki aðeins þeirra öryggi verið ógnað heldur fjölskyldna þeirra líka. 

„Við erum vissulega að horfa til þess að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi lögreglumanna við sín mikilvægu störf til þess að þeir geti tryggt öryggi borgaranna í þessum breytta umhverfi sem við blasir,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra, aðspurður hvernig öryggi lögreglumanna verði tryggt.

Lögreglan gaf ekki kost á viðtali við vegna málsins í dag.