Tveir íslenskir karlmenn eru í gæsluvarðhaldi grunaðir um að undirbúa fjöldaárásir hér á landi, sem lögregla rannsakar sem tilraun til hryðjuverka. „Við teljum að með þessum aðgerðum þá höfum við náð að afstýra raunverulega þeirra áætlun sem var að vinna voðaverk,“ sagði Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviða ríkislögreglustjóra, í Kastljósi í gærkvöld.
Hann staðfesti jafnframt að mennirnir hafi beint sjónum sínum að stofnunum á borð við Alþingi og lögreglu.
Á upplýsingafundi lögreglu í gær kom fram að rannsókn lögreglu byggi á lagagrein 100a í almennum hegningarlögum sem snýr að hryðjuverkum. Þar segir að fyrir hryðjuverk skuli refsa með ævilöngu fangelsi. Sömu refsingu skal sá sæta sem hóti að fremja hryðjuverk. Lögregla kannar tengsl mannanna við erlend öfgasamtök.
Tengsl við öfgahópa koma ekki á óvart
„Það kom ekkert á óvart að ísland sé mögulega með einhverskonar tengsl við öfga hægrihópa, Norðurlöndin hafa reynslu af slíku,“ sagði Margréti Valdimarsdóttur dósent í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, í Kastljósi.
Hún sagði að svona atburðir leiði oft af sér óbeinar afleiðingar, eins og ný þvingandi lög sem gefi lögreglu auknar heimildir. Karl Steinar segir að atburðirnir kalli á samtal.
„Um hvað við eigum að geta gert til að verja borgarana, hvað er lögreglan í stakk búin að gera. Og hvernig búum við að henni og í rauninni samfélagið allt.“
Kastljós gærkvöldsins má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.