Það er ekki raunveruleg ógn að fólk sé að prenta byssur úr plasti heima hjá sér, að sögn eiganda fyrirtækisins 3D Verk sem selur þrívíddarprentara. Enginn prenti byssur í geðshræringu. Það taki tíma og fólki þurfi að kunna vel á prentarann.
„Það þarf alltaf eitthvað auka til, það þarf að bæta einhverju við. Þú getur búið til alls konar hluti við vopnið en að fá heilt þrívíddarprentað vopn eins og við höfum séð í sjónvarpinu, það gerist ekki þannig,“ sagði Þórdís Björk Björgvinsdóttir sem var ásamt Jóhannesi Páli Friðrikssyni í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þau eiga fyrirtækið 3D verk sem selur þrívíddarprentara.
Þrívíddarprentun snýst um að bræða plast, taka eitt lag í einu og setja niður á plötu, sem síðan byggir upp hlut sem á að prenta hægt og rólega. „Þetta tekur tíma og tekur þjálfun,“ segir Jóhannes. Ört stækkandi samfélag áhugamanna sem vilji búa til skapandi hluti nýti sér þessa prentara.
Jóhannes segir leitt að prentararnir séu nýttir til vopnaframleiðslu eða til þess að búa til íhluti í vopn. Þó sé ólíklegt að fólk geti flett upp uppskrift að byssu og prentað. „Ég tel það mjög ólíklegt, þrívíddarprentun er ekki flókin en þetta er ný færni sem þú þarft að öðlast. Og að þú fáir þrívíddarprentara núna og sért komin með vopn seinna í dag er ekki að fara að gerast,“ segir Þórdís.
„Það er enginn að fara í geðshræringu að prenta byssu og að klára það á meðan hann er enn þá í uppnámi. Það er ekki raunveruleg ógn, myndi ég telja, að fólk sé að prenta virkar byssur 100 prósent úr plasti heima hjá sér. En svo er þetta eins og með alla tækni að ef þú ert með einbeittan brotavilja þá er hægt að misnota eiginlega allt.“
Hlusta má á allt viðtalið við Jóhannes Pál og Þórdísi Björk í spilaranum hér að ofan.