,,Ég ákvað þegar ég var 22 ára að mig langaði að fara þessa leið. Ég fer svo í tæknisæðingu þegar ég er 23 ára og á hann svo tveimur dögum fyrir 24 ára afmælið mitt,” segir læknaneminn Alma Glóð Kristbergsdóttir sem ákvað ung að eignast barn ein. 

,,Ég held að þetta sé svona frekar óalgeng leið að gera þetta svona ung en fyrir mig þá var þetta það rétta fyrir mig. Ég fann bara að þetta var það sem mig vantaði í líf mitt og ég ákvað að vera ekkert að bíða neitt lengur eftir því að uppfylla þennan draum,” segir Alma. Hún er yngsta móðirin í félagi Einstakra mæðra en fjallað er um félagið í Landanum í kvöld. 

,,Ég hafði alltaf séð fyrir mér að ég myndi eignast barn með maka en svo einhvern veginn þá var ég farin að þrá þetta svo mikið að ég var ekki tilbúin að bíða. Ég vildi heldur ekki finna einhvern og pressa alltof snemma á barneignir eða eignast barn með einhverjum sem ég vildi ekki eiga barn með af því ég var farin að þrá þetta svo mikið. Þannig ég ákvað að þetta væri kannski skynsamlegast fyrir mig. Að ég myndi bara eignast barn ein og ef ég kynnist einhverjum þá bara gerist það og þá bara fylgir mér barn.” 

Nánar verður rætt við Ölmu Glóð og fleiri einstakar mæður í Landanum sem fer aftur í loftið á sunnudag.