Enn er unnið samkvæmt þeirri áætlun að þjóðarhöll verði risin í Laugardal árið 2025, segir Gunnar Einarsson, formaður nýskipaðrar framkvæmdanefndar um málið.

Hann trúir ekki öðru en að ríkið standi við fyrri áætlanir, þótt innviðaráðherra hafi gefið í skyn að verkefninu seinki.

Loforð um nýja höll 2025

Íþróttahreyfingin sem hefur beðið eftir höll um langa hríð hefur tekið þessu með fyrirvara, minnug þess að íþróttahöllin hefur verið til umræðu í áratugi. Árið 1994 hét Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri því til að mynda að borgin myndi borga helming í nýrri höll, ef ríkið kæmi með hinn helminginn. Síðan er liðinn aldarfjórðungur.

Átta dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor undirrituðu forsætisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra og borgarstjóri viljayfirlýsingu þess efnis að íþróttahús sem uppfyllir kröfur fyrir alþjóðlega keppni í innanhúsíþróttum og bætir íþróttaaðstöðu fyrir skóla og íþróttafélög skyldi rísa í Laugardal árið 2025.

Lengi hefur verið kvartað yfir aðstöðuleysi í Laugardalnum. Höllin er komin til ára sinna, byggð 1965 en frá þeim tíma hafa kröfur til íþróttamannvirkja aukist mjög. 

Í ofanálag sárvantar innanhúsaðstöðu fyrir íþróttafélögin Þrótt og Ármann sem halda til í Laugardalnum. 

Úr öllu þessu á ný þjóðarhöll að leysa. Í síðasta mánuði tók til starfa framkvæmdanefnd ríkis og borgar.

Orð ráðherra vekja upp spurningar

Íþróttahreyfingin sem hefur beðið eftir höll um langa hríð hefur tekið þessum áætlunum með fyrirvara, minnug þess að íþróttahöllin hefur verið til umræðu í áratugi. Árið 1994 hét Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri því til að mynda að borgin myndi borga helming í nýrri höll, ef ríkið kæmi með hinn helminginn. Síðan er liðinn aldarfjórðungur.

Viðtal við Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra á Sprengisandi á Bylgjunni í vikunni var ekki til þess fallið að slá á efasemdarraddirnar. Umræðuefnið var opinber fjárfesting og talið barst að þjóðarhöllinni.

„Við munum ekki eyða peningum í nýjar framkvæmdir 2023 af því við ætlum ekki að búa hér til hærra vaxtastig,“ sagði Sigurður Ingi spurður út í áætlanir um þjóðarhöll fyrir árið 2025, og sagði í kjölfarið að „tímalína verkefnisins [yrði] stærri“ en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Hefur fulla trú á ríkinu

Gunnar segir að viljayfirlýsing ríkis og borgar gefi góðan ramma um verkefnið.

„Síðan á eftir að vinna þá vinnu hvaða fermetrar eru komnir eingöngu vegna landsleikja og þeirra krafna sem alþjóðasamtökin gera. Og hvaða kröfur eru gerðar til skólahúsnæðis og íþróttaæfinga og síðan fer fram bara einhver Excel-æfing í því hvað tilheyrir hverjum?“

Ríkið á nefnilega að greiða fyrir þann kostnað sem fellur til vegna landsliða, en borgin vegna skóla og íþróttafélaga.

En hefur Gunnar engar áhyggjur þótt ekki sé tekin frá ein einasta króna á fjármálaáætlun vegna verksins? Og aðeins hundrað milljónir settar fram í fjárlögum næsta árs. Hlutur ríkisins hleypur jú augljóslega á milljörðum.

Nei, það gerir hann ekki. Hann segir að meðan kostnaðarskipting liggi ekki fyrir þá sé órökrétt fyrir ríkið að taka til hliðar pening á fjármálaáætlun.

„Menn fara ekkert og setja hundrað milljónir í eitthvað undirbúningsverk og segja bara takk fyrir og bless. Það er hvorki farið af stað með svona viljayfirlýsingu né að setja eitthvað í stjórnarsáttmála til þess eins að segja bara allt í plati.“

Stórar hugmyndir

Framkvæmdanefndinni er ætlað að vinna ákveðna undirbúningsvinnu, svo sem ákvarða hvar í Laugardalnum húsið rís. -- líklegasti kosturinn er svæði sunnan við núverandi Laugardalshöll, nær Suðurlandsbraut -- og taka endanlega ákvörðun um hvað verður í húsinu.  Nefndin áætlar að skila af sér eftir um átta mánuði og eftir það er boltinn hjá ríki og borg. 

Það er bara útgefið til dæmis af Alþjóðahandboltasambandinu hvað þurfi að vera í höll sem inniheldur landsleiki. Það tekur til lýsingar, aðstöðu fyrir fréttamenn, leikmenn og eitt og annað sem er bara fyrirskrifað. Það er ekkert mjög flókið í raun að fara bara eftir því enda væri galið að gera það ekki. Við erum jú að reisa þessa þjóðarhöll til að mæta þeim kröfum.

Ýmislegt fleira gæti átt heima í höllinni að sögn Gunnars. Höfuðstöðvar ÍSÍ, aðstaða fyrir Háskólann og fleira.

„Þetta eru hlutir sem hafa verið nefndir í forskýrslum. Og það er eitt af því sem framkvæmdanefndin mun skoða og leggja þá til að það yrði kannski bætt við fermetrum hér og þar til að koma til móts við slíkar þarfir. En þá eru þær þarfir fjármagnaðar af þeim aðilum sem ætla að fara að nota það,“ segir Gunnar. „Ég sé bara iðandi líf þarna alla daga.“