Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari kvennalandsliðs Íslands í fótbolta segir lítið annað hægt fyrir umspilsleikinn um laust sæti á HM, en að undirbúa sig vel. Þorsteinn kynnti landsliðshópinn fyrir umspilið við Belgíu eða Portúgal í dag. Aðeins ein breyting er frá síðasta landsleik. Agla María Albertsdóttir kemur aftur inn eftir meiðsli í stað Sifjar Atladóttur sem er hætt með landsliðinu.
Þó svo að landsliðshópurinn sé næstum óbreyttur frá síðasta leik segir Þorsteinn valið á hópnum hafa verið erfitt. „Það er slatti af leikmönnum sem komu líka til greina. En til að koma öðrum leikmönnum inn þurfa einhverjir í hópnum að detta út. En þá þarf að vera einhver ástæða til þess að leikmaður missi sætið sitt. Mér fannst hins vegar allar sem voru í hópnum síðast eiga skilið að vera í honum áfram,“ sagði Þorsteinn við RÚV í dag.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er enn frá vegna meiðsla. En hver er staðan á henni? „Karólína er enn að vinna í sínum málum með læknateymi og sjúkraþjálfurum Bayern. Í sjálfu sér veit ég ekkert nákvæmlega stöðuna. En í raun finnst mér eins og Bayern viti það ekki heldur. En þetta er í einhverju ferli og ég vona að þetta gangi nú hratt fyrir sig úr því sem komið er og hún fari að komast út á völlinn aftur á næstu vikum. En þetta er svolítil óvissa. Það er enginn tímarammi sem er miðað við. Þannig ég veit ekki alveg nógu mikið um stöðuna,“ sagði landsliðsþjálfarinn um Karólínu Leu.
Verða við undirbúninginn í Portúgal
Ísland mætir Belgíu eða Portúgal 11. október á útivelli í leik um að komast inn í lokakeppni HM 2023 í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Aðeins einn leikur verður spilaður og það kemur ekki í ljós fyrr en 6. október hvort Ísland sé á leið til Portúgals eða Belgíu. En hvernig er sú óvissa og þetta fyrirkomulag fyrir landsliðsþjálfarann?
„Maður ætti kannski að ræða þetta við handboltaþjálfara eða eitthvað sem ganga í gegnum þetta í öllum lokakeppnum, hvernig er að undirbúa sig. Þetta er sérstakt. Maður er ekki vanur þessu, því þetta er ekki vaninn í fótbolta að það sé bara einn umspilsleikur og dregið um það hvort maður spili á heimavelli eða útivelli. Við þurfum bara að undirbúa okkur fyrir báða andstæðinga, það sem við getum undirbúið fram að leik þeirra. Við tókum ákvörðun um að fara til Portúgals og æfa þar við góðar aðstæður og koma okkur svo á þann leikstað þar sem við spilum tveimur dögum fyrir leik,“ sagði Þorsteinn.
Nánar er rætt við Þorstein í viðtali sem sjá má í spilaranum hér fyrir ofan.