Rússi, búsettur á Íslandi, segir að meðal þeirra ungu manna sem hann þekki, vilji enginn verða sendur á vígvöllinn. Víðtæk mótmæli voru víða um Rússland í dag. Bæði var verið að mótmæla herkvaðningu varaliðs og stríðinu í Úkraínu. 

Yfir þrettán hundruð hafa verið handtekin í mótmælum í um fjörutíu borgum í Rússlandi í dag. Stjórnmálahreyfingin Vesna og stuðningsmenn stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny hvöttu til mótmælanna vegna herkvaðningar um 300.000 manna varaliðs Rússlandshers.

Opinber herkvaðning hefur verið tvisvar sinnum áður í sögu Rússlands, fyrir fyrri og seinni heimsstyrjöld. Ekki hefur verið mótmælt á götum úti í marga mánuði enda tekur lögregla hart á slíku. 

Trúa ekki áróðri stjórnvalda

Andrei Menshenin sem er frá Rússlandi og býr hér á landi segir að með herkvaðningunni sé stríðið farið að snerta mun fleiri en áður. „Af þeim sem ég þekki þá vill enginn verða sendur á vígvöllinn og berjast við Úkraínu. Það er ótti við dauðann í fyrsta lagi, óttinn við hið óþekkta. Það vill enginn taka þátt í stríði sem snýst ekki um það að verja föðurlandið, heldur um að sækja fram á yfirráðasvæði annars ríkis.“ Þá segir Andrei að margt fólk trúi ekki áróðri stjórnvalda, um að sprengja þurfi Úkraínu og ná þar yfirráðum. 

Reyna að komast úr landi

Flugmiðar frá Rússlandi hafa rokselst í dag því þúsundir ungra manna reyna að flýja áður en þeir verða kvaddir í herinn. Andrei segir fólk reyna að forða sér hvert sem er þar sem það sé öruggt.

Hann bendir á að nokkur Evrópuríki hafi hætt að hleypa Rússum með ferðamannavegabréfaáritun yfir landamærin og gert það flóknara fyrir Rússa að fá annars konar áritun. Hann segir Rússa flýja heimalandið með ferðamannaáritun því fljótlegast sé að verða sér úti um hana. Þá telur hann ómannúðlegt að ríki loki á Rússa á flótta og segir það jafnvel hafa gerst að Úkraínumönnum á flótta frá Rússlandi hafi verið meinuð koma inn í nágrannaríkin.

Andrei bendir á að í byrjun síðari heimsstyrjaldar hafi yfirvöld á Íslandi neitað fólki á flótta frá Þýskalandi um að fá að koma til landsins. „Ég vona innilega að þau mistök verði ekki endurtekin á Íslandi nú.“

Fréttin var uppfærð 22. sept. klukkan 14:41. Fram kom í fyrri útgáfu að mikil örtröð hafi verið á landamærunum að Finnlandi. Erlendir fjölmiðlar greindu frá því í gær. Finnsk yfirvöld lýstu því yfir í dag að tæplega fimm þúsund Rússar hafi farið yfir landamærin í gær, um fimmtán hundruð fleiri en á miðvikudag fyrir viku.