Ferðamálaráðherra hefur sett af stað vinnu til þess að stuðla að auknu öryggi ferðamanna í kjölfar frásagnar fjölskyldu sem lenti í bílslysi við Núpsvötn 2018 í Kveik í gær. Sérstaklega verði litið til aldurs og heildaraksturs bílaleigubíla. Ráðherra segist taka frásögnina nærri sér og lofar breytingum.

Í Kveik í gær sagði Shreeraj Laturia frá því þegar hann missti konu sína, barnunga dóttur og mágkonu í bílslysi við Núpsvötn 2018. Shreeraj var undir stýri þegar bílinn fór út af brúnni yfir Núpsvötn og lenti á hvolfi í grýttum aur neðan brúargólfsins.

„Þetta er mjög átakanleg lífsreynsla sem indverska fjölskyldan lendir í hér í okkar fallega landi. Ég tek þetta svo sannarlega nærri mér sem ferðamálaráðherra,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra. Hún segir draga þurfi lærdóm af slysinu og nota það sem dæmi um það sem hægt sé að bæta hvað við kemur öryggi á Íslandi.

Lilja hefur brugðist við í kjölfar umfjöllunarinnar. 

„Við munum setja þetta inn í ákveðinn öryggishóp sem vinnur þetta inni í ráðuneytinu og hefur verið að vinna að því að stuðla að auknu öryggi ferðamanna hér á landi. Við munum nota þetta hræðilega atvik til þess að bæta reglugerðir og mögulega lagasetningu til að tryggja frekara öryggi hér á landi.“   

Hún segir að unnið verði að aðgerðaáætlun þar sem verði tekið sérstakt tillit til slyssins við Núpsvötn.  

Mikilvægt að vera á nýjum og minna eknum bílum

Bílaleigubíllinn sem fjölskyldan var á þegar slysið bar að var tólf ára gamall og keyrður 340 þúsund kílómetra. Um 90 prósent þeirra 24 þúsund bílaleigubíla sem eru hér á landi falla undir Samtök ferðaþjónustunnar.  

Hendrik Berndsen, formaður Bílaleigunefndar SAF segir að miða ætti við að bílaleigubílar ættu ekki að vera keyrðir meira en tvö hundruð þúsund kílómetra og vera mest sex til átta ára gamlir. 

„Það er kannski ekki beint hægt að kenna bílnum um en í dag eru bílar það fullkomnir að það skiptir miklu máli að það séu alltaf nýjustu bílar fyrir ökumenn sem koma til landsins.“ 

Ráðherra segir að litið verði til bæði aldurs og aksturs bíla í vinnu öryggishóps ráðuneytisins   

„Þetta er eitt af því sem hópurinn mun skoða og bera okkur saman líka við önnur ríki en það er alveg ljóst að þetta munum við taka til mjög alvarlegrar skoðunar.“

Shreeraj sagðist í gær vonast til þess að frásögn hans yrði til þess að einhverju yrði breytt. Lilja segir að honum muni verða að ósk sinni.