Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, mælir í dag fyrir frumvarpi sínu um einföldun regluverks í kringum tæknifrjóvganir. Hún fékk áhuga á málefninu út frá eigin reynslu, eftir að hafa sjálf þurft að nýta sér þjónustuna. Hún ræddi frumvarpið í morgunútvarpi Rásar 2.

Hildur segist hafa hnotið um atriði í löggjöf um tæknifrjóvganir sem henni þyki úrelt og ástæða til að breyta, svo kerfið sé fólki í þessari vegferð til aðstoðar frekar en trafala. Eitt af þeim atriðum sem Hildur telur að megi breyta í lögunum er bann við því að gefa fósturvísa. 

„Það má gefa egg og það má gefa sæði, en það má ekki gefa tilbúinn fósturvísi úr sama eggi og sama sæði. Fyrir fólk sem er í það miklum vandræðum að geta notað hvorugt af sínu, þá væri tilbúinn fósturvísir dýrmætari en gull.“

Hún segist ekki finna nein rök fyrir banninu í greinargerð laganna. Hildur segir löndin í kringum okkur ekki leggja slíkt bann. Íslensk lög séu líka mun strangari en lög landanna í kringum okkur hvað varðar reglur um að fólk sem gangist undir tæknifrjóvgun saman þurfi að vera í staðfestri sambúð eða í hjónabandi. „Því ekki er nú íslenska ríkið að skipta sér af því almennt hvernig og með hverjum fólk eignast barn svo sem.“

Vegna þessarar skilyrðingar má annar aðilinn eða báðir ekki nota tilbúinn fósturvísi ef parið eða hjónin skilja, þrátt fyrir að báðir aðilar séu samþykkir. Ekki má heldur nota tilbúna fósturvísa í geymslu ef annar aðilinn fellur frá. 
Þingmenn úr öllum flokkum eru meðflutningsmenn málsins og Hildur segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi.