Á áttræðisaldri kemst Árni Jón Árnason óvænt að því hver sé mögulegur faðir hans. Heimildarmyndin Velkominn Árni, í leikstjórn Viktoríu Hermannsdóttur og Allans Sigurðssonar, fjallar um ferðalag Árna til Bandaríkjanna í leit að uppruna sínum.

Bandarískur maður að nafni David Balsam hafði samband við Viktoríu Hermannsdóttur eftir að hann frétti af útvarpsþáttum hennar á Rás 1 sem fjölluðu um börn erlendra hermanna og íslenskra kvenna. Balsam var í leit að mögulegum hálfbróður sínum á Íslandi og taldi Viktoríu geta hjálpað sér við leitina. 

„Faðir hans hafði sagt honum, bara rétt áður en hann lést, að hann hefði eignast barn á Íslandi með íslenskri konu og það eina sem hann vissi var nafn móðurinnar. Þannig að ég fór af stað og fór að leita og setti færslu á Facebook og alls konar fólk tók þátt í leitinni sem varð til þess að við fundum þennan mann,“ segir Viktoría.  

Leitin leiddi í ljós að sá maður kynni að vera Kópavogsbúi á áttræðisaldri, að nafni Árni Jón Árnason. Viktoría setti sig í samband við Árna og það varð upphafið að góðri vináttu og áhrifaríku ferðalagi. 

„Ég gerði útvarpsþátt um þessa leit, sem heitir Á ég bróður á Íslandi. Eftir þáttinn var ég svo heilluð af Árna sem persónu að mig langaði að taka þetta aðeins lengra.“ 

Allan Sigurðsson er annar af leikstjórum myndarinnar og hefur komið víða við í sjónvarpsþáttagerð. Hann segir að þetta verkefni hafi verið ólíkt öðrum sem hann hefur tekið þátt í. 

„Maður hefur náttúrulega mikið verið að gera sjónvarpsseríur um alls konar fólk, fólk sem á kannski stóran feril í einhverju. Til dæmis íþróttamenn eða tónlistarmenn og eitthvað þannig. Svo að fá að gera bara heimildarmynd um eldri mann í Kópavogi, það er náttúrulega svona ferskt fyrir mig sko. Náttúrulega bara ferlið og bara að fá að kynnast Árna, ótrúlega þakklátt. Mér finnst hann ótrúlega hugrakkur að hafa tekið þátt í þessu með okkur og bara svona opnað sig alveg fyrir okkur.“ 

Heimildarmyndin Velkominn Árni var frumsýnd í Bíó Paradís 14. september en hún var líka sýnd á heimildarmyndahátiðinni Skjaldborg í sumar þar sem hún hlaut áhorfendaverðlaun. Viktoría segir að myndin sé í raun þroskasaga manns sem hefur ekki ef til vill ekki lifað lífinu til fulls.  

„Árni er maður sem hefur upplifað lífið heima hjá sér með því að horfa á sjónvarpið. Hann er mjög vel að sér í öllum heimsmálum. En hann hefur til dæmis ekki ferðast mikið eða gert mikið, af því hann ferðast mikið í gegnum sjónvarpið og er heima hjá sér og tekur myndir af sjónvarpinu og fylgist þannig svolítið með tilverunni. En þarna fær hann upp í hendurnar ákveðið tækifæri til að fara af stað í ævintýri sem hann svo sannarlega nýtir.“ 

Fleiri hafa haft samband við Viktoríu í leit að fjölskyldu sinni og hún segir að hún hafi getað hjálpað sumum áleiðis.  

„Þetta er alltaf eitthvað sem skiptir fólk ótrúlega miklu máli, að fá að vita uppruna sinn. En ég hef líka sagt við fólk að fréttirnar séu ekki alltaf endilega góðar. Oft er þetta bara ferðalag sem fólk þarf að fara í til að komast að sannleikanum um sjálfan sig.“ 

Rætt var við Viktoríu Hermannsdóttur og Allan Sigurðsson í Kastljósi. Hægt er að horfa á allt innslagið í spilaranum efst í færslunni.