Í sýningunni Eldskírn leikur myndlistarkonan Sigrún Hlín með eldinn í tungumálinu og eldinum í menningarsögu Vesturlanda. „Á sama tíma erum við að fylgjast með hamfarahlýnun og þar er eldurinn gríðarlega sterkt myndrænt element.“

Á sýningunni Eldskírn í Listasal Mosfellsbæjar hanga handprjónuð textílverk úr loftinu og sýna mismunandi brennandi fyrirbæri. Myndlistarkonan Sigrún Hlín Sigurðardóttir veltir þar fyrir sér eldinum í tungumálinu og í menningarsögu vesturlanda. „Eldur í líkamanum er ótrúlega þrálátt leiðarstef og það kemur fyrir í ótrúlega mörgum tungumálum og frásögnum. Þá brennur eldurinn í hjartanu, það stendur fyrir geðshræringar, tilfinningar.“ Rætt var við Sigrúnu í Víðsjá á Rás 1.  

Líkaminn brennur og heimurinn líka 

Sigrún Hlín lærði íslensku í Háskóla Íslands áður en að hún sneri sér að myndlistinni. „Ég lærði íslensku upphaflega eftir menntaskóla og þar var dálítill spenningur fyrir kenningum um hugræn fræði þar sem eru notaðar aðferðir taugavísinda til að skoða hvernig myndlíkingar eru hluti af því hvernig maður hugsar og það kemur fram í tungumálinu og í frásögnum.“ 

Eldurinn er þrálátt stef og myndlíkingar um eld er okkur flestum tamt að nota. Við tölum um að brenna brýr að baki, að lungun brenni við mikla áreynslu, að brenna af ást, að brenna út og margt fleira. „Eitthvað þegar að það er eitthvað mjög mikið í gangi. Brennur eldur í æðunum, hjartanu og lungun brenna við mikið líkamlegt álag eða áreynslu og svo framvegis.“ 

„Á sama tíma erum við að fylgjast með hamfarahlýnun og þar er eldurinn gríðarlega sterkt myndrænt element. Eldarnir færast alltaf nær okkur og nær okkur og það er orðið hluti af því hvernig við tölum um hamfarahlýnun.“  

Tungumál og myndræn framsetning sameinast í brennandi Teslu 

Hugmyndin að sýningunni Eldskírn, sem stendur nú yfir í Listasal Mosfellsbæjar, kviknaði þegar Sigrún vann að lokaverkefni sínu í meistaranámi í myndlist við Háskólann í Bergen í Noregi. „Þar prjónaði ég verk þar sem að ég var að velta fyrir mér ýmsum heimsslitakenningum og ýmsum táknum og myndum að fornu og nýju fyrir heimsendi.“ 

Við undirbúning á meistaraverki sínu rannsakaði Sigrún myndskreytt miðaldahandrit þar sem vítislogar eru oft áberandi. „Eldurinn kemur svo feikilega mikið við sögu þar.“ Sigrún fór að para myndræna framsetningu eldsins við það hvernig hugmyndin um eld er notuð sem myndlíking í mörgum tungumálum. „Svo fór ég að para þetta eldmótíf með alls konar fyrirbærum og þá fór ég að leika mér með hvernig eldurinn er mótíf í tungumálinu og það er eitthvað sem mér hefur alltaf þótt spennandi.“ 

Eitt verkanna á sýningunni sýnir bíl af tegundinni Tesla brenna og er dæmi um hvernig Sigrún leikur sér með tungumálið og hugrenningatengsl orða og fyrirbæra við myndræna framsetningu. „Það er það sem mér fannst skemmtilegt við að skoða Tesluna. Hún er ótrúlega flókið tákn. Hún er stöðutákn, hún stendur líka fyrir orkuskipti, hún stendur líka fyrir status quo í bílamenningu og svo kemur oft í fréttum þegar kviknar í Teslum.“ 

Annað verk sýnir brennandi lungu. „Vissulega, á þeim tíma sem að ég var fyrst að teikna upp þessi verk, þá er faraldur í gangi sem leggst á lungun í fólki,“ segir Sigrún kímin en bætir við að bruni sé líka stöðugt ferli í líkamanum. „Það er sterk tilfinning sem maður fær þegar maður sér eitthvað sem á að vera inni í líkamanum utan hans og svo logar það. Þetta er ekki eins og það á að vera.“ 

Handverkið ólaunuð og óþökkuð kvennavinna 

Í aldanna rás hefur handverk notið mismikillar virðingar. Ofnar altaristöflur voru meðal fárra listaverka kvenna sem höfð voru í hávegum á sínum tíma en smám saman missti handverk gildi sitt sem myndlistarform eftir því sem árin liðu, að sögn Sigrúnar. „í stigveldi handverksaðferða myndi ég ekki segja að prjón væri sérstaklega hátt skrifað, alla vega ekki í myndlistarsamhengi.“ Hún segir prjón nátengt heimilinu og ólaunaðri og jafnvel óþakkaðri vinnu kvenna. „Það tengist líka virði sem við setjum í fötin sem við göngum í sem er svo tengt þessu ótrúlega afbakaða virði sem föt hafa vegna þess að fólk er vant því að föt séu neysluvara sem er verðlögð þannig að þeir sem búa hana til hafa varla í sig og á.“  

Sigrún hefur unnið með textíl í dágóðan tíma og segist hafa byrjað að kljást við prjónið vegna þess að það var henni tamt. „Vegna þess að það er leið sem ég kann til að koma frá mér myndum. Sú leið sem mér er færust og tömust til að skoða liti og form og litahlutföll og hreyfingu í rými.“ Á sama tíma gerir hún sér grein fyrir vísunum prjóns til kvennahandverks og kvennavinnu. „Þannig að þetta er alltaf bak við.“ 

Á sýningu Sigrúnar eru verkin þrívíð og hanga úr loftinu. „Þessi verk eru unnin þannig að það eru margir litir og margir þræðir og ef ég væri prúð heimasæta myndi ég ganga frá öllum þráðunum þannig að það sæist varla munur á réttu og röngu. Í staðinn læt ég lafa góða slummu af garni á bakhliðinni þannig að þetta er eins og verulega loðið rýjateppi aftan á.“ 

Framhliðin og bakhliðin segja því ólíka sögu og hafa ólíka áferð. „Þess vegna læt ég þetta hanga svona í rýminu þannig að maður komist hringinn í kring og sjái báðar hliðarnar jafnt.“ 

Fölsk tilfinning um stjórn 

Eldskírn er fyrsta einkasýning Sigrúnar hér á landi. Nafnið segir Sigrún að vísi til ritúalískra eiginleika elds og hvernig samband manns og elds hefur breyst. „Eldurinn er að mörgu leyti, þó að hann sé alltaf nálægt okkur og alltaf hluti af því sem að við erum að gera, þá er hann svo falinn.“  

Hún segir fólk hafa falska tilfinningu fyrir stjórn yfir eldinum. „Hann er í kertalogum sem við höfum heima hjá okkur eins og pínupínulitlir drekar til að segja okkur að við höfum stjórn á einhverjum öflum sem við missum svo ótrúlega fljótt úr höndunum á okkur ef við missum fókus.“ 

Rætt var við Sigrúnu Hlín Sigurðardóttur í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.