Forystumenn í Flokki fólksins á Akureyri segjast vera fórnarlömb í þeirri stöðu sem upp er komin í flokknum. Þeir segja alla forystuna hafa grínast með kynferðislega áreitni kosningastjórans.

Kannast ekki við andlegt ofbeldi

Flokkur fólksins á Akureyri logar nú stafna á milli eftir að þrjár konur sökuðu karla í flokknum um ofbeldi. Þeir eru á öðru máli. „Við erum fórnarlömb í þessu máli og þær eru gerendur og það má ekki misskilja það,“ segir Brynjólfur Ingvarsson, oddviti flokksins.

Neitar því að hafa hótað þeim

Konurnar hafa borið karlana ýmsum sökum. Þær segja Brynjólf hafa hótað því að búa þannig um hnútana að þær missi starfsleyfi sín sem heilbrigðisstarfsmenn. „Það var ekki hótun heldur ábending, um að ef ég hefði komið fram við þær eins og þær við mig 6. september þá hefði ég kannski mist lækningaleyfið. Og ég sagði að ef þetta endurtekur sig hjá ykkur, þá gætu starfsleyfin komist í hættu.“

Er það ekki hótun?

„Ég segi það nú kannski ekki.“

Grínuðust með ásakanir um kynferðislega áreitni 

Auk ásakana um andlegt ofbeldi saka konurnar Hjörleif Hallgríms, kosningastjóra framboðsins, um kynferðislega áreitni. Konurnar leituðu til Jóns og Brynjólfs eftir atvikin en fengu að eigin sögn litla hjálp. „Hann hefur sjálfur viðurkennt það og sagt frá því í blöðum að hann, ég segi ekki klæmdist en hann talaði svona glannalega.“

Er þetta ekki meira en að tala glannalega? 

„Að segja, ég legg ekki hendur á konur nema í rúminu?“

Er það ekki meira en að tala glannalega?

„Ja þær tóku þetta sjálfar bara sem grín og við hlógum öll að þessu.“

Jón Hjaltason tekur í sama streng. „Þær litu á þetta sem brandara og þess vegna litum við á þetta sem brandara líka og bara hlógum með þeim,“ segir Jón.

Viðtalið við þá Brynjólf og Jón má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.