Danska embættismannakerfið nötraði þann 20. janúar þegar hulunni var svipt af nöfnum fjögurra manna sem sátu í gæsluvarðhaldi fyrir alvarlegan glæp; að ljóstra upp um ríkisleyndarmál. Og það sem meira er, einn þeirra handteknu var enginn annar en sjálfur æðsti yfirmaður leyniþjónustu danska hersins, Lars Findsen.
Findsen hafði verið handtekinn á Kastrup-flugvelli snemma í desember á leið heim úr vinnuferð og varið jólunum á bak við lás og slá. Allt fór þetta fram í kyrrþey og án þess að almenningur hefði haft minnstu hugmynd um.
En hvaða viðkvæmu ríkisleyndarmálum hafði hann eiginlega deilt? Og höfðu þau í raun og veru stefnt öryggi danska ríkisins í hættu? Það vissi enginn. Og veit varla enn.
Það liggur kannski í hlutarins eðli að þegar menn eru sakaðir um að hafa deilt ríkisleyndarmálum, þá stíga saksóknarar ekki fram í fjölmiðlum og útlista hver ríkisleyndarmálin eru. Í hvert sinn sem gæsluvarðhald var framlengt yfir Findsen fór dómshald fram fyrir luktum dyrum.
Reynslumestur í ríkisleyndarmálum
Lars Findsen er lögfræðingur að mennt. Áður en hann tók við forstjórastöðunni í leyniþjónustu danska hersins, hafði hann verið yfirmaður hinnar leyniþjónustunnar í Danmörku, leyniþjónustu dönsku lögreglunnar PET. Þar áður skrifstofustjóri í varnarmálaráðuneytinu. Findsen sat í þjóðaröryggisráði Danmerkur og hafði gert í ein tuttugu ár. Morten Skjoldager, dómsfréttaritari Politiken lýsir honum sem dönsku leyniþjónustunni holdi klæddri.
„Hann er sennilega sú manneskja í Danmörku sem hefur mesta reynslu af að fara með ríkisleyndarmál.“
Findsen hafði þá sýn að leyniþjónustan ætti að vera eins opin og kostur er. Það væri til þess fallið að auka traust almennings á störfum hennar. Í því fólst meðal annars að upplýsa almenning um hryðjuverkaógn sem hafði verið hrundið aftur. Þessu lýsti hann ágætlega í hlaðvarpsþætti Politiken, stuttu fyrir handtökuna.
„Við vorum þeirrar skoðunar í PET að við skyldum greina frá hryðjuverkahótunum og reyna að vera eins aðgengileg og gagnsæ og mögulegt er til að auka traust borgara til okkar,“ sagði hann meðal annars í þættinum.
Sendur í leyfi
Sagan af handtökunni nær aftur til haustsins 2020. Þá gaf sérstök eftirlitsstofnun, sem hefur það hlutverk að fylgjast með störfum leyniþjónustunnar, út svarta skýrslu um störf hennar.
Eftirlitsstofnunin taldi ástæðu til að ætla að leyniþjónustan hefði, þvert á lög, safnað og afhent upplýsingar um danska borgara úr landi. Varnarmálaráðherra Danmerkur brást skjótt við og sendi Findsen og fjóra aðra yfirmenn í leyniþjónustunni umsvifalaust í leyfi frá störfum. Sérstök rannsóknarnefnd var skipuð til að fara ofan í saumana á meintum brotum. Þeirri rannsókn lauk reyndar nýlega og var niðurstaðan sú að leyniþjónustan hefði engin lög brotið.
Hver stórfréttin rekur aðra
En í millitíðinni hófu fréttir að birtast í dönskum fjölmiðlum. Hver greinin á fætur annarri þar sem sagt var frá leynilegu njósnasambandi Bandaríkjanna og Danmerkur, sem veitti Bandaríkjunum aðgang að upplýsingum um almenna borgara í Danmörku og víðar með gagnkvæmum ávinningi ríkjanna. Þetta samkomulag var svo sem þekkt. En umfang þess ekki. Og heldur ekki að núverandi varnarmálaráðherra hefði í hyggju að segja því upp.
Stuttu síðar komu uppljóstranir um að Bandaríkjamenn hefðu nýtt þetta samstarf til að njósna um erlenda þjóðarleiðtoga vinaþjóða, svo sem Angelu Merkel Þýskalandskanslara.
Danska ríkisútvarpið segir að innan leyniþjónustunnar hafi mönnum hætt að lítast á blikuna. Ljóst væri að einhver innan þeirra raða væri gasprandi í fjölmiðla hægri-vinstri.
Þannig fóru stórfréttirnar á færibandi úr leynimöppum dönsku leyniþjónustunnar og yfir í fjölmiðla.
Berlingske flutti fregnir af því að danskur maður, Ahmed Samsam, sem hafði verið dæmdur í átta ára fangelsi á Spáni fyrir að tilheyra hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu — hann hefði í raun verið sendur þangað á vegum leyniþjónustu danska hersins, með fé og tiltekið verkefni. Þess má geta að Samsam afplánar enn dóminn, í dönsku fangelsi.
Ekstra blaðið ljóstraði stuttu síðar að ríkisstjórnin hefði hunsað ráðleggingar leyniþjónustunnar í máli barna sem voru föst í fangabúðum í Sýrlandi eftir að mæður þeirra gengu til liðs við ISIS. Leyniþjónustan vildi fá börnin til landsins. Annað skapaði ógn fyrir danska ríkið til framtíðar. En ríkisstjórnin vildi ekki sjá þau. Uppljóstranirnar urðu til þess að ríkisstjórnin var nauðbeygð að skipta um skoðun.
- Sjá meira: ISIS-liðar komnir heim til Danmerkur
Almannahagsmunir og erindið við almenning
Enn er ekki vitað fyrir víst hvaða upplýsingum Lars Findsen á að hafa ljóstrað upp og ekkert liggur fyrir um að Findsen sé endilega heimildarmaðurinn að baki þessum fréttum.
En meðan á öllu þessu stóð var heimili hans, sími og sumarbústaður í það minnsta hleraður. Frá þessu gátu fjölmiðlar greint í síðustu viku þegar ákæra var gefin út. Ákæruefnið er að hafa deilt leynilegum upplýsingum — ekki kemur fram hverjum — með sex manneskjum, móður sinni á níræðisaldri, bróður, kærustu, vini og tveimur blaðamönnum.
Meint brot áttu sér stað yfir sextán mánaða tímabil þar sem Lars Findsen var í fyrrnefndu leyfi frá störfum. Málið hefur varpað ljósi á togstreituna milli hagsmuna leyniþjónustustofnana og fjölmiðla. Leyniþjónustan vill halda upplýsingum frá almenningi á þeim forsendum að þar séu sérstök ríkisleyndarmál á ferðinni. En eiga þær upplýsingar þá aldrei erindi við almenning?
Efasemdir um málatilbúaðinn
Aðkoma stjórnmálanna að málinu hefur líka vakið undrun. Komið hefur fram að tilteknir stjórnmálamenn hafi fengið kynningar á rannsókn málsins og að á þeim fundum hafi ýmislegt verið látið flakka, sem hefur ekkert með sakamálið að gera. Upplýsingar um einkalíf leyniþjónustuforstjórans og meira að segja hvað fer fram í svefnherberginu hans. Rannsakendurnir vita þetta allt enda sætti Findsen umfangsmiklum hlerunum á öllum vígstöðvum í meira en eitt ár. Ákæruvaldið fer fram á fjögurra ára dóm yfir Findsen, en sjálfur neitar hann sök.
Eva Smith, lögfræðiprófessor við Kaupmannahafnarháskóla, segir margt benda til þess að málið gegn Lars Findsen sé byggt á veikum grunni. Þær upplýsingar sem hefur verið lekið án þess að tengjast málinu gefi tilefni til þess.
Í sama streng tekur Jørn Vestergaard annar lögfræðiprófessor sem segir við Berlingske að ákærurnar virðist brjóta í bága við almenna skynsemi. Til að mynda sé Findsen ákærður fyrir að hafa stefnt öryggi danska ríkisins í hættu. Erfitt sé að átta sig á hver sú hætta ætti að vera, jafnvel þótt Findsen væri heimildarmaðurinn að baki öllum þessum fréttum.
Þá furðar hann sig á því að Findsen sé ákærður fyrir samtöl við nánustu vini og ættingja. Varla sé í alvöru hægt að gera þá kröfu að menn sem hafa verið sendir í launalaust leyfi vegna rannsóknar ræði það ekki við sína nánustu.
Hver sem niðurstaðan verður er ljóst að málið er sögulegt. Þetta er í fyrsta sinn í fjörutíu ár er ákært fyrir brot gegn lögum um uppljóstrun ríkisleyndarmála. Og danskir fjölmiðlar segja það án fordæma á Vesturlöndum.
Verði Findsen fundinn sekur yrði það áfellisdómur yfir dönsku leyniþjónustunni og til þess fallið að skaða trúverðugleika hennar í samskiptum við systurstofnanir erlendis. En verði hann sýknaður, er niðurlægingin ákæruvaldsins og dómsmálaráðherrans sem þurfti að kvitta upp á ákæruna.
Allt skýrist þetta á næstu mánuðum þegar réttarhöld hefjast í Eystri-Landsrétti, og þá að sjálfsögðu fyrir luktum dyrum.