Margrét Sigfúsdóttir, fyrrverandi skólastýra Hússtjórnarskólans, hefur um áratugaskeið kennt ungu fólki að reka heimili. Hún kann vel að meta að vera spurð ráða á förnum vegi en eys þó ekki úr viskubrunni sínum í tíma og ótíma. „Maður er alveg vaxin upp úr því.“
Margrét Sigfúsdóttir stýrði Hússtjórnarskólanum í aldafjórðung og er óþrjótandi viskubrunnur um allt sem snýr að rekstri heimilisins. Hún hafði einnig umsjón með þættinum Allt í drasli á Skjá einum ásamt Heiðari Jónssyni. Í þættinum sóttu þau fólk heim og hjálpuðu því að koma reglu á óregluna. Margrét, sem á ráð við flestum þeim áskorunum sem mæta fólki í rekstri heimilis, var föstudagsgestur í Mannlega þættinum á Rás 1. Þar svaraði hún meðal annars spurningum hlustenda um allt milli himins og jarðar.
Fólk ekki búið að gleyma kellingunni
Margrét lendir í því að vera spurð spurninga á ólíklegustu stöðum um rekstur heimilisins og finnst það bara skemmtilegt. „Æj, það eru ekki allir búnir að gleyma kellingunni,“ segir hún hlæjandi.
Hún hefur um áratugaskeið kennt ungu fólki allt um heimilishald, lengst af í Hússtjórnarskólanum þar sem hún var skólastýra í aldarfjórðung. Skólastarfið og námsefnið hefur tekið breytingum í gegnum tíðina. Til að mynda varð smám saman algengara að strákar sóttu námið í bland við stelpur. „Þeir þurfa náttúrulega að læra þetta eins og stelpur. Maður fæðist ekki með þessa kunnáttu.“
Nemendur Margrétar í gegnum tíðina hlaupa á hundruðum. „Ég segi alltaf við krakkana, ef að ég heilsa ekki úti á götu þá verðið þið að heilsa mér og segja hvað þið heitið.“ Nemendur hennar voru yfirleitt á menntaskólaaldri og minnast skólavistarinnar með hlýju. Margrét er þeim greypt í minni. „Svo breytist fólk svo frá því að maður er með 18 ára krakka hjá sér og svo eru þau komin undir fertugt, það er svo mikil breyting.“ Fyrir vikið þarf hún stundum smá upprifjun þegar að hún mætir fyrrverandi nemendum sínum en segir alltaf skemmtilegt að hitta þau.
Tískustraumar og nýjar uppskriftir
Þó að tískustraumar breytist í takt við tímann segir Margrét að í grunninn sé námsefni Hússtjórnarskólans alltaf það sama. „Þetta er í grunninn alltaf það sama sem maður þarf að kunna.“ Námsefnið snýr meðal annars að matreiðslu og næringarfræði, þrifum heimilisins og fatasaumi og viðgerðum.
„Maturinn breytist og uppskriftir breytast og það er hægt að kaupa hálftilbúið og miklu þægilegra en í gamla daga,“ segir Margrét. Áður fyrr voru til dæmis kennd handtök við flökun á fiski en það er ekki lengur í námskránni. „Þið kaupið ekki ýsu með haus og hala og öllu saman í dag og flakið sjálf.“
Í fatasaumi gefst nemendum tækifæri til að sauma flíkur á sjálfa sig. „Mér finnst svo mikið atriði að þau læra að taka upp snið úr blöðum og búa til snið á sjálf sig.“ Þó að tískustraumar breyti til dæmis efnisvali og fleiru þá er alltaf gott að geta sinnt viðgerðum og breytingum á fötunum sínum að sögn Margrétar. „Það þarf að læra að víkka og þrengja og allt svona.“
Eilífur frágangur heimilisins
Í þættinum Allt í drasli, sem sýndir voru á Skjá einum, fóru þau Margrét og Heiðar „snyrtir“ Jónsson inn á heimili fólks sem hafði misst tökin á draslinu heima við. „Það er stundum orðið svo óyfirstíganlegt að fólk veit ekki hvar það á að byrja,“ segir Margrét um hinn eilífa frágang heimilisins. Þau Margrét og Hreiðar létu hendur standa fram úr ermum og kenndu fólki réttu handtökin. „Sortera fyrst. Sortera fötin og setja þau í óhreina, henda því sem á að henda, það er stundum matur undir rúmum og diskar með afgöngum og öllu mögulegu. Þetta þarf allt að sortera og setja á sinn stað og síðan bara að byrja að þrífa.“
Hún segir mikilvægt að hafa huggulegt heima hjá sér til að tryggja vellíðan. „Að það sé hreint og huggulegt inni hjá manni og ekki allt í drasli og skít, vond lykt og allt það. Það er ekkert gaman að koma inn á svoleiðis heimili.“ Hún hefur þó lært það í gegnum tíðina að vera ekki að fella dóma um fólk og hreinlætið á heimili þess. „Maður er alveg vaxin upp úr því. Maður bara steinheldur ká joð og brostir allan hringinn,“ segir Margrét hlæjandi.
Rætt var við Margréti Sigfúsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1. Hún svaraði meðal annars spurningum hlustenda í seinni hlutar þáttarins. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.