„Í hnotskurn mætti segja að sagan sé eins konar þroskasaga eldri konu sem loksins hefur tíma og rými til að finna sjálfa sig,“ segir leiklistargagnrýnandi Víðsjár um sýninguna Á eigin vegum sem sýnd er í Borgarleikhúsinu.
Eva Halldóra Guðmundsdóttir skrifar:
Það er eitthvað svo gífurlega fallegt við hversdagsleikann. Dagleg rútína sem felur í sér einföldustu hluti en við verjum óendanlega miklum tíma í. Með góðu gúgli kemst maður að því að meðalmanneskja eyðir áttatíu og tveimur dögum í að bursta í sér tennurnar yfir ævina, drekkur áttatíu og sex þúsund kaffibolla og bíður í ár í biðröðum. En við erum kannski ekki vön að sjá hversdaginn settan upp á þann hátt. Að dagleg rútína sé í sviðsljósinu og leiðir til að verja tímanum þegar vinnan er frá og dagurinn virðist óendanlegur.
Einkennileg kona sem á ekkert nema kettina sína
Síðastliðið laugardagskvöld var sýningin Á eigin vegum frumsýnd í Borgarleikhúsinu. Verkið er einleikur í leikgerð Maríönnu Clöru Lúthersdóttur og Sölku Guðmundsdóttur upp úr bók Kristínar Steinsdóttur sem ber sama titil. Sigrún Edda Björnsdóttir fer með hlutverk ekkjunnar Sigþrúðar Kristbjargar Ólafsdóttur sem er blaðburðarkona í Norðurmýrinni. Sigþrúður kemur áhorfendum fyrir sjónir sem einkennileg kona sem stundar það að mæta í jarðarfarir hjá fólki sem hún þekkir ekki neitt og virðist ekki eiga neinn að nema elskulegu kettina sína. Hún hefur sterkar skoðanir á hegðun fólks í jarðarförunum og hefur unun af blómarækt. Áhorfendur fá svo að flakka fram og til baka um lendur minninganna með Sigþrúði og upplifa drauma hennar. Okkur verður fljótlega ljóst að Sigþrúður hefur alla tíð þurft að standa á eigin fótum og lífshlaup hennar verið stútfullt af missi, erfiðleikum og mótlæti. Móðurmissir, líkamleg fötlun og einelti hafa litað líf hennar frá upphafi og gert að verkum að hún á nánast ekkert bakland og treystir ekki á neinn nema sjálfa sig. En hún á sér drauma. Langar að þekkja uppruna sinn, ferðast til Frakklands og þráir barnið sem hún missti og fjölskylduna sem hún aldrei eignaðist. Með hjálp manns sem býr fyrir ofan hana hefur hún leit að móðurafa sínum og finnur. Í hnotskurn mætti segja að sagan sé eins konar þroskasaga eldri konu sem loksins hefur tíma og rými til að finna sjálfa sig.
Ævintýraleg og barnaleg
Sviðsetning verksins er ævintýraleg og barnaleg á góðan hátt. Leikmyndin er eins og auður strigi. Á striganum er búið að koma fyrir húsgögnum og hlutum úr íbúð Sigþrúðar en þegar hún hverfur með okkur inn í minningu eða ímyndaða veröld birtist hugarheimur hennar dansandi á striganum í formi myndbanda og mynda. Egill Sæbjörnsson myndlistarmaður gefur þessum minningum ævintýralegan blæ með teiknimyndastíl og líflegu litavali. Hljóðheimur og tónlist verksins eru í höndum Sóleyjar Stefánsdóttur og ríma vel við leikmyndina og ýta undir jákvæða upplifun áhorfenda. Samspil lýsingar, hljóðheims og leikmyndar hefur skemmtileg áhrif á skynfærin. Áhorfandinn finnur nánast fyrir slyddunni berja á andlitinu þegar Sigþrúður gengur milli húsa með Morgunblaðið í myrkrinu og finnur kaffiilminn þegar hún situr á kollinum í eldhúskróknum að sötra.
Hversdagslegir draumar
Saga Sigþrúðar er alls ekki stórbrotin eða einstök. Ég held að það þurfi ekki að leita lengi að manneskju sem hefur upplifað svipaða eða sömu hluti og hún. Mætti segja að sagan sé heldur hversdagsleg og er það með ráðum gert að nota sögu hennar til að beina sjónum okkar að hvunndagsharminum eða hversdagslegum draumum konu sem er að öllu leyti ósýnileg í samfélaginu. Stefán Jónsson, leikstjóri verksins, hefur náð að leiða saman hópinn og skapa ánægjulega togstreitu milli hversdagsleikans og litskrúðugra draumóra. Verkið er taktfast og skemmtilegt og heldur manni allan tímann þrátt fyrir að maður finni áþreifanlega fyrir tímanum í verkinu. Rútína Sigþrúðar gerir það að verkum að áhorfendur finna tíma dagsdaglegra skylduverka líða hægt hjá en svo er rútínan brotin upp með minningum Sigþrúðar úr æsku, úr hjónabandi hennar, af einu ástinni hennar og barnsmissi hennar.
Frábær túlkun kallar fram kjarna verksins
Sigrún Edda Björnsdóttir hefur lengi verið ein af mínum uppáhaldsleikkonum. Ég varð held ég hugfangin af henni þegar hún lék Bólu og mér ógleymanleg í Gullregni. Hennar fræga kómíska tímasetning glæðir hlutverk Sigþrúðar lífi. Húmor og glettni gera að verkum að við dveljum ekki í því að hún sé ein á báti í lífinu. Innra líf Sigþrúðar er kjarni verksins og kallar hlutverkið á leikkonu eins og Sigrúnu Eddu. Þetta er fyrsti einleikurinn sem Sigrún Edda leikur í og hún gerir það stórkostlega. Hún flakkar fram og til baka í æviskeiði Sigþrúðar eins og ekkert sé og holdgast í litla telpu, ungling, konu og kerlingu. Svipbrigði hennar og núansar í túlkun eru frábærir.
Óljós mörk drauma og raunveruleika
Stundum fór ég að efast um hvort ég gæti treyst frásögn Sigþrúðar. Mörk draumóra, minninga og skynjunar á raunveruleika verður óljós. Áhorfandi sér að mögulega hafi fullorðna fólkið í kringum hana þegar hún var barn ekki sagt henni alla söguna af uppruna hennar, hún ekki þorað að spyrja eða ekki viljað heyra svörin. Ég vildi að það hefði verið leikið meira með þessi mörk. Ég hefði viljað að leit hennar að móðurfjölskyldunni og barnsmissirinn hefði fengið aðeins meira rými í verkinu. En eins og áður sagði er áhersla verksins önnur en harmurinn. Það er að beina sjónum að konunni sem alla tíð hefur verið litið fram hjá. En ef áfall eins og það að fæða andvana barn hefði verið stækkað hefðum við sem áhorfendur tengst Sigþrúði enn meira og skilið hana betur. Konur og fólk með leg sem hafa gengið í gegnum þetta vita að það litar alla tilveruna. Nístandi sársaukinn sem kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar þú teygir þig eftir sódavatni í Bónus, þegar þú fattar að þú gætir verið að þrífa litla sokka í stað einungis þinna eigin fata eða dagsetningar í dagatali minna þig á afmælisboðin sem aldrei verða haldin. Á köflum náði þessi sársauki að skína í gegn en ekki alveg nægilega sterkt. Kannski er ég bara svona dramatísk að vilja velta mér upp úr sársauka hennar en ég upplifði að jafnvel hefði þurft að búa til rými í handritinu á fleiri stöðum og þannig stíga betur inn í áfallið til að dýpka verkið.
Hver og eitt æviskeið er magnað
Á eigin vegum sýnir okkur að hversdagsleikinn er stórkostlegur, asnalegur, skemmtilegur, fyndinn, lítilfjörlegur og allt þar á milli en vel þess virði að beina sjónum okkar að. Hvert og eitt æviskeið er magnað. Fólkið sem við hunsum í strætó, sem verslar samhliða okkur í matinn og reynir að spjalla í pottinum á sér sögu. Kvenfólk kannast vel við að hafa ekki fengið að vera í sviðsljósinu og sögur kvenna hafa ekki skipt jafn miklu máli og karla og Sigþrúður er af þeirri kynslóð sem ekki tók sér pláss, vildi ekki vera áberandi því það var ekki kvenlegt. Hún var einnig lítilmagni, átti ekkert bakland og þess vegna enginn til að styðja hana í sársauka hennar né tilbúinn að láta hann skipta máli. Þetta verk á erindi við okkur öll því við erum gjörn á að bera fyrir okkur að harmur annarra komi okkur ekki við en hann gerir það svo sannarlega. Því er ég virkilega ánægð að þetta verk sé sett upp í Borgarleikhúsinu, sérstaklega í ljósi þess að Ein komst undan var sett upp á síðasta leikári. Borgarleikhúsið ætlar greinilega að gera sitt til að auka fjölbreytileika á sviðinu með vali á hlutverkum kvenna, þá sér í lagi eldri leikkvenna og verkum kvenhöfunda. Að konur sem eru eldri en þrjátíu og fimm ára fái bitastæðari hlutverk sem eru ekki bara aukahlutverk og að verk kvenna séu sviðsett. Það er skemmtilegt að sögur kvenna sem fengið hafa takmarkað rými í samfélaginu séu dregnar fram í sviðsljósið. Þó svo að ég hafi viljað örlítið dýpri tilfinningalega tengingu við Sigþrúði er verkið hjartnæmt og krúttlegt og það er fallegt og mikilvægt að skyggnast inn í líf ósýnilegu kerlingarinnar í kjallaranum.
Eva Halldóra Guðmundsdóttir flutti pistil sinn í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.