Fatlað fólk í búsetuúrræðum á vegum borgarinnar þarf sjálft að borga fyrir fylgdarmenn vilji það gera sér dagamun. Ásta María Jensdóttir, móðir manns sem býr í íbúðakjarna á vegum Reykjavíkurborgar segir að fatlað fólk eigi ekki að þurfa borga fyrir fötlun sína.
Maður með downs-heilkenni og einhverfu, sem flutti í íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í apríl, greiðir fyrir fylgd starfsmanns af eigin örorkulífeyri þegar hann fer til dæmis í bíó eða út að borða. Engar samræmdar reglur eru til um hver ber kostnað starfsmannsins í tilvikum sem þessum. Móðir mannsins segist hafa leitað svara hjá borginni en engin svör fengið.
„Ég hef verið að pressa á það að gefa mér svör. Þá hafa þeir verið mjög óþolinmóðir gagnvart því að þeir viti það ekki og að þeir þurfi að kynna sér það. Mér finnst bara tímabært að árið 2022 þá vitum við þessa hluti.“
Stór hluti örorkulífeyris
Ásta segir að kostnaður geti verið um tíu til tuttugu þúsund krónur á mánuði, sem sé stór hluti af framfærslu sonar hennar. Eðlilegra væri ef ríkið eða sveitarfélögin bæru þann kostnað. „Það þarf að kippa þessu í lag. Það þarf að gera það á réttum stöðum. Ég vona að fólkið sem er að vinna með honum að þau fái fljótleg svör því þau vilja gera allt til þess að bæta þetta.“
Málefni fatlaðs fólks voru endurskoðuð af sérstökum starfshóp árið 2021, sem skipaður var af þáverandi félags- og barnamálaráðherra. Þar voru meðal annars lagðar fram tillögur um hvernig eigi að hátta greiðslum til starfsmanna sem fara á viðburði með fötluðu fólki.
Fjármagn ekki enn skilað sér ellefu árum síðar
Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu um málefni fatlaðs fólks hjá Reykjavíkurborg, segir að miklar umbætur hafi orðið á málaflokknum síðustu ár en að vissir hlutir hafi setið á hakanum. „Strax við yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 var ljóst að þarna var pottur brotinn. Fjármagn sem fylgdi þessum stuðningi við íbúa var til staðar í búsetuþjónustu fyrir geðfatlaða en hefur aldrei verið settur inn í búsetuþjónustu við fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir.“
Aðalbjörg segir að lengi hafi staðið til að breyta þessu fyrirkomulagi. „Ég held að okkar helsti fókus hafi farið í að tryggja fólki húsaskjól síðasta áratuginn og stuðning í daglegu lífi. En þetta er hlutur sem við höfum rætt og viljum breyta.“
Stendur til að niðurgreiða fylgdarmann
Hún segir að tillaga hafi verið lögð fram til félags- og vinnumarkaðsráðherra. Ef að allt gangi eftir verði búið að breyta þessum reglum strax um áramótin. Farin verði sama leið og er farin í stuðningsþjónustu við fatlað fólk í sjálfstæðri búsetu, sem fær niðurgreiddan kostnað upp að rúmlega fimm þúsund krónum á mánuði.