Leitir og réttir fara fram um allt land þessa dagana. Ekki síður hjá sauðfjárbændum á höfuðborgarsvæðinu líkt og öðrum. Smalar fengu lögregluaðstoð við að koma fé sínu yfir Suðurlandsveg þegar reykvískir sauðfjárbændur sóttu fé sitt úr afrétt í gær.

Fátt var um fé við Suðurlandsveg við Sandskeið þegar fréttastofu bar þar að í gær. En fljótt fóru kindur að sjást í hópum og á eftir fylgdu smalarnir.

„Nú erum við að reka hér að fé sem hefur verið smalað úr afrétt Seltjarnarnesshrepps hins forna. Það er úr Reykjavík og Kópavogi. Seltjarnarnes er fjárlaust,“ segir Ólafur Dýrmundsson fjallkóngur. 

Um fimm til sex hundruð kindur voru reknar af fjalli í gær.

„Reykjavík og Kópavogur, það eru um fimmtán hjarðir. Við erum með aðeins tvö hundruð og þrjátíu vetrarfóðraðar kindur. En 1960, skömmu eftir að ég byrjaði að eiga kindur um fermingaraldur, voru fimm þúsund vetrarfóðraðar kindur í Reykjavík og Kópavogi og Seltjarnarnesi.“

Fjárfjöldi er þó ekki það eina sem hefur breyst á þessum tíma. Suðurlandsvegur er einn umferðarþyngsti vegur landsins, og mikill tálmi á leiðinni í réttir. 

„Það er dálítið erfitt að komast hérna yfir og við höfum lögregluaðstoð við það. Svo er það rekið hérna suður fyrir í Fossvallarétt, Fossvallarétt í Lækjarbotnalandi.“ 

Þegar umferð er stöðvuð, þá þarf allt að vera til reiðu?

„Allt til reiðu og undirbúið með löngum fyrirvara. Notaðir farsímar og allt mögulegt og alveg stranglega bannað að fara yfir veginn fyrr en lögreglan gefur grænt ljós.“ 

Þegar allt var til reiðu, smalar, lögregla og aðrir á sínum stað, mátti opna hliðið.