Nær engar líkur er á að Rússar verði samvinnuþýðir með Alþjóðaglæpadómstólnum í Haag þegar kemur að rannsókn meintra stríðsglæpa þeirra í Úkraínu. Þetta segir lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Saksóknari dómstólsins hefur hafið frumkvæðisrannsókn á framferði rússneska hersins.
Forstjóri Fjarskiptastofu segir sölu Mílu frá Símanum grundvallarbreytingu á heildsölumarkaði fjarskipta hér á landi. Ný lög feli í sér viðameiri öryggisákvæði fjarskiptaneta en aldrei sé hægt að útiloka njósnir sé einbeittur brotavilji fyrir hendi.
Varaformaður Flokks fólksins segir í skoðun að fá þriðja aðila til að kanna ásakanir þriggja kvenna á hendur karlmanna sem skipuðu lista flokksins á Akureyri í vor.
Víðtæk mótmæli hafa verið í Íran síðustu daga eftir að ung kona lést í haldi lögreglu. Yfirvöld segja konuna hafa fengið hjartaáfall en fjölskylda hennar telur að henni hafi verið ráðinn bani. Hún var handtekin fyrir meint brot á reglum um klæðaburð.
Áhrifa orkukreppu og verðbólgu er ekki farið að gæta í ferðaþjónustu hér á landi, samkvæmt framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands.
Meðalhiti í Reykjavík í september er í tólfta sæti á þessari öld yfir hitatölur og örlítið yfir meðallagi, en á Akureyri er hiti í september eins og í meðalári.