Rebekka Sverrisdóttir, fyrirliði KR í Bestu deild kvenna í fótbolta, telur að það vanti að staðið sé við orðin þegar kemur að umgjörð liðsins. KR féll fyrr í dag úr Bestu deildinni en Rebekka ræddi sumarið í heild sinni og umgjörðina um kvennaliðið við íþróttadeild RÚV.

Langt frá því áfallalaust sumar

Kvennalið KR féll í dag úr Bestu deild kvenna eftir 3-5 tap gegn Selfyssingum í dag. KR er með sjö stig eftir 16 leiki en á tvo leiki eftir. KR hefði þurft á sigri að halda í dag auk þess að Þór/KA stúlkur töpuðu suður með sjó í Keflavík.

Rebekka var spurð að því hvaða tilfinningar velkjast um í henni eftir fallið. 

“Ömurlegt. Leiðinlegt. Þetta er svo sem búið að vera bíða eftir og við höfum verið að halda í vonina. En í dag er það orðið staðfest að við verðum ekki áfram í efstu deild.”

KR eru nýliðar í deildinni í ár eftir að hafa sigrað Lengjudeild kvenna í fyrra. Liðið féll úr efstu deild árið 2020 eftir tímabil sem var stytt vegna Covid-19 faraldursins. Hafði liðið þá farið í sóttkví þrisvar það tímabilið.

Í ár máttu lið KR þola ansi langan tíma milli keppnisleikja, líkt og íþróttadeild Vísis fjallaði ítarlega um. Heill mánuður leið þá á milli leikja hjá liðinu, en þær spiluðu þrjá leiki á 80 dögum yfir há sumarið. Rebekka sér þó enga ástæðu til þess að kvarta yfir niðurröðun leikja.

Það hefur ýmislegt gengið á hjá ykkur í sumar – hvernig finnst þér sumarið búið að vera í heild sinni?

“Þetta er búið að vera ofboðslega skrýtið sumar. Óvenjulegt í marga staði. Þjálfaraskipti. Pásur. Tvær pásur. Alls konar uppákomur sem eru búnar að taka okkur svolítið úr jafnvægi í sumar. Þetta er óvenjulegt sumar.”

Finnst þér KSÍ hafa gert ykkur einhvern grikk með þessum pásum?

“Nei, ég held ekki. Ég veit ekki hvernig þetta átti að raðast öðruvísi. Þetta hittir akkúrat á að við erum með Breiðablik og Val á þessum tímapunkti og þess vegna verður þetta svona. Það er ekki hægt að sjá þetta fyrir fram og það er þétt dagskrá hjá þeim. Þannig ég skil að það er ekki hægt að gera mikið í þessu.”

Þá nefndi Rebekka einnig að liðið hefur ekki byrjað að hugsa um verkefnið í Lengjudeild á næsta ári og það er fullur fókus á síðustu tvo leiki liðsins í Bestu deild kvenna.

Rebekka var spurð að því hvað henni finnst KR þurfa að gera til að verða stöðugur efstu deildar klúbbur aftur?

“Góð spurning. Yfir höfuð finnst mér vanta vilja og metnað til að gera hlutina vel. Mér finnst mikið talað og lítið gert. Þetta eru allir litlu hlutirnir. Aðstæður sem við höfum hérna í KR. Það er ekki búið að manna börur hér í dag þar sem leikmaður meiðist illa og er sárþjáð inni á vellinum og það tekur ótrúlegan tíma. Þetta eru litlu atriðin sem að mér þykir ótrúlega sárt að KR geti ekki staðið undir. Það er rosalega margt sem mér finnst að. Hugarfar og mér finnst vanta að það sé staðið við orðin að þau vilji allt fyrir okkur gera.”

Þjálfaraskipti í Vesturbænum í sumar

Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari liðsins sagði upp störfum 22. maí í ár en liði var þá án stiga eftir fimm leiki. Raunar hafði Jóhannes Karl sagt starfi sínu lausu í byrjun maí en haldið áfram með liðið. Arnar Páll Garðarsson aðstoðarþjálfari liðsins tók þá við liðinu og stýrði því ásamt Gunnar Einarssyni út maí mánuð.

Í byrjun júní var svo Írinn Cristopher Harrington ráðinn og stýrði hann liðinu ásamt Arnari Páli. Fyrir viku síðan var það gefið út að Arnar Páll muni hætta með liðinu en ekkert hefur verið gefið út með Cristopher Harrington. Harrington skrifaði þó undir tveggja ára samning við félagið í vor.