Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur líklegt að endalok covid-faraldursins séu í sjónmáli. Þó sé enn brýnt sé að fólk þiggi bólusetningu. Svæðisstjóri stofnunarinnar í Evrópu hrósar íslenskum stjórnvöldum fyrir bólusetningarherferð.
Dauðsföll vegna covid á heimsvísu voru 11.118 í fyrstu viku september og hafa ekki verið færri síðan í mars 2020, þegar veiran var að byrja að breiðast um heiminn. „Við höfum aldrei staðið betur að vígi til að enda faraldurinn. Enn höfum við ekki náð því en það sér fyrir endann,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, í ávarpi í síðustu viku. Hann líkir faraldrinum við maraþonhlaup. Þegar hlaupari nálgist endamarkið, hætti hann ekki að hlaupa heldur gefi allt sitt í endasprettinn.
Yfirmaður Evrópuskrifstofu stofnunarinnar, Hans Kluge, tekur í sama streng og segir að komi ekki nýtt afbrigði þá gæti faraldrinum lokið bráðlega. „Við þurfum að vera vongóð og það er afar mikilvægt að fólk fái annan örvunarskammt, einkum viðkvæmt fólk og að eftirlit sé öflugt svo að allar þjóðir geti fljótt greint ný afbrigði.“
Kluge hefur verið hér á landi síðustu daga og meðal annars setið alþjóðlega ráðstefnu Rótarý og rætt við Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Hann hrósar skipulagi bólusetningar við COVID-19 hér á landi. „Íslendingar eru í fremstu röð í heiminum og er það vegna bólusetningarhefðar á grunni almennrar heilsugæslu.“
Ekki þarf að tíunda áhrifin sem faraldurinn hafði um allan heim. En hvað telur Kluge að jarðarbúar hafi lært af faraldrinum? „Við höfum tvímælalaust komist að því að þegar vá kemur upp á einum stað gerist það fljótlega alls staðar. Svo að eina leiðin til að vinna bug á þessari vá eða apabólunni eða hverri annarri er með alþjóðasamstarfi og því er ég hér, í boði Rotary International að koma saman hvaðanæva að úr heiminum til að endurvekja baráttu okkar gegn annarri ógn, mænusóttinni.“