Áform eru um fimmtíu megawatta vindmyllugarð í Hvalfirði á 300 hekturum á fjallinu Brekkukambi í landi Brekku. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins Zephyr Iceland sem hefur hug á rafmagnsframleiðslu með vindmyllum segir svæðið einkar hentugt. Íbúar í Hvalfjarðarsveit óttast umhverfisáhrif og sjónmengun verði vindmyllugarðurinn að veruleika.
Vindmyllugarðurinn sem áform eru um að reisa í landi Brekku upp á fjallinu verða ansi háar. 200 metrar hver ef að þær verða átta til tólf talsins. Til greina kemur einnig að hafa þær heldur fleiri og heldur lægri tíu til fimmtán talsins og um 150 metra háa hver.
Fyrirtækið Zephyr Iceland í eigu Ketils Sigurjónssonar er dótturfyrirtæki norska vindorkufyrirtækisins Zephyr sem er í eigu norskra fylkja og sveitarfélaga. Hvalfjörður er einn tíu valkosta sem fyrirtækið er að skoða.
„Þannig að þetta er ekki mjög stórt verkefni en þetta er mjög áhugaverður staður út frá ýmsu út frá vindi og nálægð við höfuðborgarsvæðið. Stærsti raforkumarkaðurinn þar og svo framvegis.“
Ketill telur ljóst að aukna raforku skorti á Íslandi innan tíðar. Hann fullyrði þó ekki um hvort vindorka sé betri en aðrar leiðir. Hún sé þó ódýrari og auðveldari í byggingu en vatnsafls- og jarðvarmaverkefni.
Ketill segir þó að vindmyllur nútímans séu sannarlega stór mannvirki og því þurfi að vanda undirbúning mjög vel. Það hafi fyrirtækið gert í Noregi og ætli einnig að gera það á Íslandi. Íbúar í Hvalfirði eru margir uggandi vegna áforma um vindmyllugarð.
Arnfinnur Jónasson er talsmaður íbúa
„Okkur finnst þetta í raun galin hugmynd þetta fjall Brekkukambur er í 650 metra hæð yfir sjávarmáli og það er gert ráð fyrir að vindmyllurnar getir orðið allt að 250 metra háar sem þýðir að þetta er komið yfir 900 metra yfir sjávarmáli og mun sjást hérna að úr nánast öllum Borgarfirðinum yfir á Þingvelli Glym sem er aðal ferðamannastaðurinn hérna og í uppsveitir Borgarfjarðar. Svo höfum við bara áhyggjur af mengun frá þessu. Hljóðmengun, örplastmengun frá vindmylluspöðunum og slíku.“
Ketill telur að áhyggjur flestra sem þær kunni að hafa muni hverfa þegar ásýndarmynd sem sýni vindmyllurnar í landslaginu verði tilbúið.
Arnfinnur Jónasson telur áhrifin hins vegar verða víðtæk.
Nálægðin við sumarhúsa og íbúðabyggð. Verðfall á eignum verðfall á sumarhúsum. Þetta mun allt hafa áhrif það er alveg ljóst.
Verði áform um vindmyllugarðinn að veruleika er talið raunhæft að hann verði tilbúinn eftir um sex til sjö ár.
Mat á umhverfisáhrifum vegna vindmyllugarða fyrirtækisins er hafið eða er að hefjast á þremur stöðum á landinu. Auk Brekku er það á Mosfellsheiði og að Klausturseli á Norð-Austurlandi. Skipulagsstofnun skoðar umhverfismatsáætlun til samþykktar eða synjunar og þá fer áætlunin til Umhverfisstofnunar og umhverfismat fer fram. Verði áform um vindmyllugarðinn að veruleika er talið raunhæft að hann verði tilbúinn eftir um sex til sjö ár.
Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið uppfærð.