Lítið hefur farið fyrir gosbrunnum á Íslandi undanfarin ár og þykir aðgerðaleysi yfirvalda skammarlegt. Í ljós hefur komið að íbúa landsins þyrstir í góða brunna með öflugri sprautu en fátt er um svör þegar eftir þeim er spurt. Berglind Festival fór á stúfana og kynnti sér hvað orðið hefur um alla frægu gosbrunnana okkar.
Íslenski gosbrunnurinn gæti heyrt sögunni til, samkvæmt Berglindi Festival, sem spyr hvað hafi orðið um alla gosbrunnana. Frá aldaöðli hafa gosbrunnar sett svip sinn á lystigarða og aðra staði þar sem fólk kemur saman. Enda er fátt glæsilegra en brunnur með kröftugri sprautu og jafnvel ljósasýningu og tónlist. Nú virðast þeir þó hvergi sjáanlegir. Berglind kynnti sér málið í Vikunni með Gísla Marteini í gær.
Samkvæmt Katrínu Karlsdóttur umhverfissálfræðingi hafa gosbrunnar sefandi áhrif sem veita heilanum hvíld. „Þess vegna eru þeir svona góðir í borgarumhverfi, því ys og þys frá borginni getur haft áhrif á heilastarfsemi,“ segir hún. Þar af leiðandi munu borgarbúar missa vitið komi ekki til fleiri gosbrunnar hið fyrsta, samkvæmt Berglindi.
Haft er eftir Líf Magneudóttur, fulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði, að hennar fyrsta verk sem borgarstjóra yrði að heimta fjarstýringu að gosbrunninum í Tjörninni. Þá gæti hún hafið hvern dag með því að setja hann af stað.
Hér á árum áður höfðu gosbrunnar notagildi, bæði til að kæla fólk niður og skaffa því vatn. Tinna Marteinsdóttir er nemi í arkitektúr og segir vandamálið helst liggja í viðhaldi brunnanna. Til að mynda hafi gosbrunnurinn í Perlunni, sem lifir nú einungis í manna minnum, ryðgað í gegn.
Í svokölluðum hverfakosningum segir Berglind að í ljós komi að íbúa þyrsti í góða brunna. Lítið hefur þó komið út úr þeim kosningum annað en vaðlaugar sem ekkert sprautast upp úr. Berglind tók málin því í eigin hendur og byggði sinn eigin brunn.