Helgi Laxdal Aðalgeirsson var nokkuð sáttur með frammistöðu karlandsliðsins í hópfimleikum á EM í dag. Liðið endaði í 4. sæti en er virkilega ungt og Helgi horfir björtum augum á framtíðina. Ræddi hann eigin framtíð í fimleikunum, aldurssamsetninguna á liðinu og árangurinn í dag við Helgu Margréti Höskuldsdóttir sem er stödd úti á Evrópumótinu.
“Við erum í topp fjögur og erum ótrúlega stoltir af því. Markmiðið var að vera á palli en við náðum því ekki. En við gerum bara betur næst.”
Þið eigið ekki fullkominn dag, þannig þið sjáið að þið eigið smá inni til að vera á verðlaunapalli?
“Okkur gekk samt alveg mjög vel, en það voru bara nokkur mistök. Danirnir og Norðmenn voru betri, og Svíarnir voru góðir. Við gerðum okkar besta.”
Helgi ræddi einnig aldurssamsetningu á liðinu og aukinn áhuga hjá strákum í fimleikum.
“Já, við erum mjög ungir. Við erum yngsta karlaliðið af öllum liðunum sem eru hérna.
“Við þurfum að halda áfram, við erum að gera góða hluti. Við erum með drengjaliðið núna. Það er núna svo mikið pepp í fimleikum að vera strákur. Ég finn miklu meiri mun núna heldur en þegar ég var 2014, eða þegar ég byrjaði í fimleikum. Það eru miklu fleiri strákar. Það eru miklu meiri strákastemning í fimleikum heldur en var, sem er æðislegt.”
Þú ert ekkert hættur?
“Nei, ég er ekkert hættur. Ég á mikið eftir – eða ég vona það allavega!”
Helgi var valinn Fimleikamaður ársins 2021.