Sögur af andláti sveitarinnar Mammút eru stórlega ýktar að sögn Ásu Dýradóttur, bassaleikara sveitarinnar. Sveitin kemur fram í kvöld á tónleikum í Gamla bíói ásamt Kælunni miklu, Gróu og Börnum. „Þetta eru miklar vinahljómsveitir, þannig að ég er ógeðslega spennt fyrir kvöldinu í kvöld,“ segir Sólveig Matthildur, syntþaleikari Kælunnar miklu.

Í kvöld efna hljómsveitirnar Kælan mikla og Mammút til tónleikaveislu í Gamla bíói ásamt Gróu og Börnum. „Við vorum búin að ákveða að spila með Kælunni en allt breyttist í kjölfarið á Rokk í Reykjavík tilkynningunni. Við fengum Börn og Gróu með okkur til að ýta undir fjölbreytileikann í rokkinu,“ segir Ása Dýradóttir, bassaleikari Mammút. Tilkynning um tónleika í Kaplakrika undir yfirskriftinni Rokk í Reykjavík olli nokkru fjaðrafoki í sumar. Margir hjuggu eftir því að engar konur kæmu þar fram. Tónleikahaldarinn, Franz Gunnarsson, sagðist í samtali við Vísi allur af vilja gerður að bóka konur en þar væri því miður ekki um auðugan garð að gresja. Ása Dýradóttir, bassaleikari Mammút og Sólveig Matthildur, synþadrottning Kælunnar miklu, ræddu um tónleikahald í Reykjavík í Morgunútvarpinu á Rás 2.  

Hlógu að andlátstilkynningu 

„Já við fréttum af því einmitt í fjölmiðlum að við værum hætt og hringdum svo í hvert annað og sögðum, hvað segið þið?“ segir Ása. „Við hlógum samt bara að þessari tilkynningu.“ Hljómsveitin hefur starfað óslitið frá 2004 en fór í dvala á meðan heimsfaraldurinn gekk yfir. „Við höfum aldrei hætt. Við fórum í smá covid-dvala eins og allir en við gáfum út plötu 2020 í nóvember sem fór í eitthvað svarthol eins og allt sem var gefið út á þessum tíma.“ Hún segir að andlát sveitarinnar hafi því verið stórlega ýkt. „Mammútinn fór í smá sífrera en nú er að þiðna undir honum. Hann er ekki útdauður.“ 

Fullyrðing tónleikahaldara um að Mammút hefði lagt upp laupana segir Ása að hafi fyllt sveitina metnaði til að gera fyrirætlaða tónleika með Kælunni miklu sem best úr garði. „Við fengum Börn og Gróu með okkur til að ýta undir fjölbreytileikann í rokkinu. Við erum rosalega ólík bönd en öll kvennaleidd.“ 

32 tónleikar á 30 dögum 

Hljómsveitin Kælan mikla hefur gert það gott erlendis undanfarin ár. Hún hefur starfað í tæp tíu ár og gefið út fjórar hljómplötur. Vegur hennar er greiður erlendis og hún hefur komið fram á tónleikum víða um heim. „Eftir covid gáfum við út plötu og fórum á Evróputúr í vor. Núna í sumar erum við búnar að vera á festivölum bæði í Evrópu og í Kanada. Síðan núna erum við að fara til Bandaríkjanna á útgáfutúr þar,“ segir Sólveig Matthildur. Tónleikaferðin um Bandaríkin er skipulögð í samstarfi við bókunarfyrirtæki sem hafa skipulagt 30 tónleika á 32 dögum fyrir sveitina. „Við fljúgum inn og spilum, keyrum og spilum og keyrum og spilum.“  

Langlífar sveitir með fjölda platna á bakinu 

Hljómsveitin Mammút vann Músíktilraunir 2004 og hefur starfað síðan. Það styttist í tvítugsafmæli sveitarinnar sem hefur sent frá sér fimm breiðskífur. „Ég byrjaði tveimur árum seinna, þannig að ég er svona nýi bassaleikarinn. Ég er bara búin að vera í 17 ár,“ segir Ása kímin.  

Kælan mikla vann Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins 2013. „Við höfum gefið út fjórar plötur og þær gætu allar verið sitthver hljómsveitin,“ segir Sólveig. „Síðasta platan er meira rokk og við höfum verið að túra líka með hljómsveitum í metal-senunni og erum með aðeins meira rokk.“ 

Það má vænta mikillar rokkveislu í Gamla bíói í kvöld. „Þetta eru miklar vinahljómsveitir, þannig að ég er ógeðslega spennt fyrir kvöldinu,“ segir Sólveig.  

Rætt var við Ásu og Sólveigu Matthildi í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.