Ómar Ragnarsson hlaut í dag, á degi íslenskrar náttúru, náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra veitti Ómari verðlaunin.
Guðlaugur Þór sagði Ómar hafa fært þjóðinni hvert náttúruundrið á fætur öðru alla leið heima í stofu. Jafnt með Stikluþáttum sínum og öðrum myndum um náttúruvernd.
Eins hafi Ómar verið ötull við að vekja athygli á rafknúnum farartækjum síðustu ár, til að mynda hafi hann ferðast á rafhjóli frá Reykjavík til Akureyrar 2015, þá 75 ára gamall.
„Íslensk náttúra væri svo miklu fátækari ef ekki væri fyrir eldhuga sem eru tilbúnir að leggja allt í sölurnar fyrir hana. Ég eins og margir Íslendingar erum svo heppin að hafa átt Ómar sem glugga inn í hluti sem eru svo ótrúlega mikilvægir en fáir sinntu. Einstaklingar skipta máli og skýrt dæmi um það, er Ómar Ragnarsson,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni.
Aldri yrði hægt að mæla hvað Ómar hafi gert fyrir íslenska náttúru. Margar kynslóðir hafi fengið að kynnast náttúru Íslands vegna áhuga og atorku Ómars Ragnarssonar.