Psilocybin, hugbreytandi efni sem finnst í ofskynjunarsveppum, hefur verið talsvert til umræðu að undanförnu. Fjöldi rannsókna gefur tilefni til að binda vonir við virkni þess gegn meðferðarþráu þunglyndi. Það er þunglyndi sem svarar illa meðferð. Talið er að 15-30 prósent þeirra sem glíma við þunglyndi svari illa meðferð.
Sveppirnir eru eins og gefur að skilja ekki ný uppgötvun né heldur virkni þeirra. Til að mynda er vitað til þess að þeir hafi verið notaðir við helgiathafnir í Mexíkó fyrir 3000 árum. Á sjötta áratug síðustu aldar hófust rannsóknir á áhrifum psilocybins á geðraskanir. Þær rannsóknir voru stöðvaðar þegar að sveppirnir voru gerðir ólöglegir í Bandaríkjunum árið 1970.
Vísindamenn hafa tekið upp þráðinn. Í grein í Læknablaðinu kemur fram að ný safngreining sýni marktækan árangur psilocybin-meðferðar við meðferðarþráu þunglyndi. Þar kemur líka fram að niðurstöður úr fasa 2-rannsókn lofi góðu. Þær niðurstöður hafa ekki verið birtar. En til að psilocybin-meðferð geti hlotið ábendingu og markaðsleyfi hjá lyfjastofnunum er næsta skref að ljúka fjölþjóðlegri fasa 3-rannsókn sem stefnt er að því að hefjist á þessu ári. Þannig gæti sjúklingum með meðferðarþrátt þunglyndi innan örfárra ára staðið til boða að reyna slíka meðferð. Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlækningum, og Árný Jóhannesdóttir, sérnámslæknir í geðlækningum, eru höfundar greinarinnar.
Rannsóknir hafi sýnt að psilocybin þolist almennt vel vel. Þær aukaverkanir sem voru til staðar voru yfirleitt metnar vægar eða meðalalvarlegar og entust stutt. Engilbert segir samanburð psilocybins við hefðbundin þunglyndislyf vera flókinn.
Líkast til mætti kalla meðferðina nokkuð óhefðbundna. Hún fer þannig fram að sjúklingurinn fær 25 milligrömm af psilocybini, oftast í eitt skipti, leggst svo fyrir í 5-8 klukkustundir, þann tíma sem ofskynjunaráhrifin vara, með bundið fyrir augu og tónlist í eyrunum. Fagaðili þarf að sitja yfir sjúklingnum í þessa 5-8 klukkutíma. Jákvæðra áhrifa á geðheilsu sjúklinganna getur svo gætt jafnvel svo mánuðum skipti eftir eina svona meðferð.
Rætt var við Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlækningum, og Árný Jóhannesdóttur, sérnámslæknir í Speglinum. Hægt er að hlusta á viðtalið við þau í spilaranum hér fyrir ofan.