Heimir Hallgrímsson er nýr landsliðsþjálfari karlaliðs Jamaíka í fótbolta. Hann skrifaði í kvöld undir fjögurra ára samning. Markmannsþjálfarinn Guðmundur Hreiðarsson verður einnig hluti af þjálfarateyminu.

Heimir þjálfaði karlalandslið Íslands frá 2013-18 og var áður aðstoðarþjálfari. Hann fór því með liðið bæði á EM 2016 og HM 2018. Því næst hélt hann til Katar þar sem hann þjálfaði Al Arabi til sumarsins 2021. 

„Þetta var bara einhver tenging í gegnum þjálfara. Svo gerðist þetta ansi hratt á stuttum tíma. Ég hef nú verið hérna í fríi og það er býsna gott að vera hérna svo landið heillaði mig. En þegar við fórum að skoða landsliðið og kannski hvernig þeim var búið að ganga þá fannst okkur þetta vera fullkomin tenging. Það sem vantaði er skipulag, varnarleikur og það þarf að búa til góða liðsheild.“

Blaðamannafundur var haldinn eftir undirskriftina í kvöld þar sem Heimir
segist hafa viðurkennt fúslega að hann þekki ekki mikið til fótboltans á
Jamaíka almennt. „En það er ótrúlegt magn af góðum leikmönnum í góðum 
deildum sem geta spilað fyrir landsliðið.“

Það eru stór verkefni framundan hjá jamaíska liðinu; leikur við Argentínu síðar
í september, þjóðadeildin á næsta ári og Gullbikarinn næsta sumar. Aðalmarkmiðið segir Heimir að búa til lið sem gæti gert góða hluti á HM 2026. Liðið spilaði síðast á heimsmeistaramótinu 1998. 

Skrítnir fyrstu dagar

Heimir ferðaðist til Jamaíku fyrr í vikunni. „Þetta er búið að vera rosa skrítið, ég skal bara viðurkenna það. Þeir vildu alls ekki að ég kæmi í höfuðborgina og alls ekki að fólk vissi að ég væri hérna, þeir sögðu að þá fengi ég ekki frið fyrir fjölmiðlum og annað þannig ég var bara einn uppi í sveit í húsi og vann bara mína vinnu í gegnum internetið.“

Hann segist líta á verkefnið sem frábært tækifæri til að kynnast nýjum hlutum,
til þess sé jú lífið. „Ég var í Persaflóanum í þrjú ár og kynntist þeim kúltúr. Eigum við ekki að segja að þetta sé alveg á hinum endanum á litrófinu. Það sem er bannað þar er leyfilegt hér.“

Varðandi launakjör segir Heimir: „Þetta er örugglega bara svipað og maður
hefði fengið á Íslandi. Þetta er ekki stórt knattspyrnusamband og ekki 
auðugt land en það á ríkan kúltúr og það er ótrúlega gaman að hitta fólk hérna. Það vegur upp á móti hinu.“