„Ísland er ekki bara Reykjavík, fullt af útlendingum hér á Austurlandi og við þurfum að fá þjónustu líka,“ segir Iryna Boiko sem flutti hingað til lands frá Úkraínu fyrir ellefu árum. Fjölskylda hennar flúði til hennar eftir að innrásin í Úkraínu hófst og stóð Iryna í ströngu við Útlendingastofnun í sjö vikur vegna þess að þau voru ekki staðsett á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrir ellefu árum síðan flutti Iryna Boiko til Íslands frá Úkraínu. Hún býr á Egilsstöðum og hefur starfað þar sem naglafræðingur. Eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst hefur ástandið í heimalandi hennar gjörbreyst og sex meðlimir fjölskyldu hennar flúðu heimili sín og komu hingað til lands vegna stríðsins. 

Iryna er gestur Mannlega þáttarins á Rás 1 og segir sögu sína og hvernig gengið hefur að koma fjölskyldu hennar fyrir hér á Íslandi.  

Lifði allt öðru lífi á Íslandi  

Árið 2010 giftist Iryna manni sem hafði þá búið á Borgarfirði eystra í nokkur ár ásamt bróður sínum og frænda þar sem þeir störfuðu hjá ÁlfaCafé. Ári síðar kom Iryna til Borgarfjarðar eystra og undi sér vel þar.  

„Við vorum að spá að bara prófa að vera kannski í ár, sjá til hvernig það verður og hvernig okkur líður,“ segir Iryna. Þau enduðu á að vera um kyrrt á Borgarfirði eystra í sex ár áður en þau færðu sig yfir til Egilsstaða. Hún hafi byrjað að vinna hjá Fiskverkun Kalla Sveins sem var algjörlega ný upplifun fyrir henni því hún hafði áður starfað sem naglafræðingur í heimalandinu. „Það var mjög skemmtilegt og rosa mikið nýtt fyrir mig, allt annað líf.“  

Fljótlega fóru konur á Borgarfirði eystra og Egilsstöðum að frétta af því að hún væri naglafræðingur og tók hún sífellt að sér fleiri kúnna. Eftir að hafa unnið að heiman í heilt ár ákvað hún að flytja til Egilsstaða og annast naglasnyrtingu í fullu starfi. 

„Hvar er allt fólkið?“ 

Það voru mikil viðbrigði fyrir Irynu að fara frá Cherkasy í Úkraínu þar sem 350 þúsund manns búa og yfir til rúmlega hundrað manna samfélags á Borgarfirði eystra. „En ég kom í júlí og þá er brjálað mikið að gera þar á Borgarfirði. Fullt af túristum og fullt af fólki og gestum,“ segir hún. „Þegar kom vetur, það var mjög skemmtilegt,“ bætir hún við og hlær. Hún hafi spurt hvar allt fólkið væri. 

„Hvað meinarðu við megum ekki fara til Egilsstaða? Lokað? Ekki hægt að keyra?“ spurði hún sig en segir reynsluna skemmtilega.  

Komu einungis með pínulitla bakpoka  

Þegar stríðið blossaði upp í Úkraínu í febrúar þurftu fjölskyldumeðlimir hennar að flýja heimili sín og lá þá beint við að þeir kæmu til þeirra hjóna. „Það var rosa erfið leið, þau voru alveg næstum sex daga á leiðinni til Íslands,“ segir hún. „Það var erfitt fyrir alla, þau koma bara hingað með pínulitla bakpoka og þetta var mjög stressandi.“ 

Tveimur vikum eftir að stríðið hófst komust hingað til lands móðir hennar, mágkona með son sinn, vinkona með son sinn og frænka hennar. Það hafi gengið ágætlega að koma þeim fyrir en Iryna segist ekki hafa verið undir það búin að taka á móti svo mörgum gestum á sama tíma.  

„En Íslendingar tóku rosa vel á móti öllum flóttamönnum á Íslandi, sérstaklega hér á Austurlandi,“ segir Iryna. „Fólk sem á heima hér á Austurlandi var að hjálpa, þau voru að koma með föt, mat, skó, peninga, leikföng fyrir krakka og bara allt. Það er mjög dýrmætt og við erum mjög þakklát fyrir allt, bara endalaust.“ 

„Ísland er ekki bara Reykjavík, við þurfum að fá þjónustu líka“ 

Fyrstu þrjá mánuðina var fjölskylda Irynu hjá henni og voru þau því 10 manns í fjögurra svefnherbergja húsi. „Það var svolítið þröngt en mjög öruggt, og allt í lagi. Það var miklu betra en að vera í Úkraínu á þeim tíma.“ Mágkona hennar flutti til Borgarfjarðar eystra þar sem henni og syni hennar var vel tekið. Hún hafi fengið bæði húsnæði og vinnu og pláss í skóla fyrir son sinn.  

Það hafi þó gengið brösuglega að fá kennitölur fyrir fólkið. „Það er svolítið erfið saga, af því að ég var að rembast í Útlendingastofnun í sjö vikur,“ segir Iryna. „Á meðan flóttamenn sem voru í Reykjavík fá kennitölur alveg eftir fimm til sjö virka daga.“ Þetta hafi verið vegna þess að Útlendingastofnun heldur ekki úti þjónustu fyrir landsbyggðina en henni hafi verið velkomið að koma við í Hafnarfirði. Iryna segir þetta hafa verið erfitt fyrir alla og bendir á að mikið sé af flóttafólki um allt land, sérstaklega á Austurlandi og þar sé þörf á þjónustu líka.  

Vilja auðvitað snúa aftur heim  

Staðan í Cherkasy er frekar róleg eins og er að sögn Irynu. „En þú veist ekki hvað verður eftir fimm mínútur eða á morgun,“ bætir hún við. Fjölskyldu hennar þyki því öruggara að vera um kyrrt hér á Íslandi þó auðvitað vilji þau snúa aftur til fjölskyldu sinnar og vina í Úkraínu. „Þau langar að fara en á hverjum degi byrja þær að hugsa að kannski það verður erfitt. Kannski ekki strax, ekki núna.“ 

Allir krakkarnir séu komnir í skóla og fullorðna fólkið komið með vinnu eftir að þau fengu kennitölur og vegni þeim vel hér á Íslandi. „Það er mjög gott að hafa rútínu, hafa vinnu og hitta fólk fyrir fólk sem er að hugsa allan tímann um stríð og neikvætt,“ segir Iryna.  

Gunnar Hansson ræddi við Irynu Boiko í Mannlega þættinum á Rás 1. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.