Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sem stödd er í Serbíu vegna EuroPride, árlegrar hátíðar hinseginfólks, segir ástandið í landinu vera eins og að stíga áratugi aftur í tímann.
Samkynhneigð og önnur frávik frá hinni hefðbundnu, gagnkynhneigðu heimsmynd íhaldssamra og kirkjurækinna Serba mæta enn miklum fordómum í Serbíu, þar sem samkynja hjónabönd eru bönnuð og ofbeldi gegn samkynhneigðum er enn útbreiddur vandi í Serbíu.
Minni viðburðir eru enn á dagskrá en yfirvöld í Serbíu bönnuðu Europride-gönguna sem fyrirhuguð var á morgun. Hanna Katrín segir mikinn kraft í skipuleggjendum en lögreglan sé mjög sýnileg þar sem hinsegin fólk kemur saman, og mikil spenna í loftinu.
„Mér brá svolítið fyrst. Mér fannst þetta óþægilegt og ég gerði hlut sem ár og áratugir eru liðnir síðan mér hefur þótt ég þurfa að gera; ég tók af mér nælu og armband þegar ég kom inn í borgina. Ofboðslega óþægilegt og ég er með hnút í maganum. Þetta er mjög vont,“ sagði Hanna Katrín í Morgunútvarpinu á Rás tvö.
„Við erum í ákveðnu áfalli hérna hópurinn af þessum alþjóðlegu þingmönnum, kjörnu fulltrúum og embættisfólki sem er hér og líður eins og við höfum stigið ár og áratugi aftur í tímann, því miður. Og ég vona að þetta fari ekki illa á morgun.“