Félags- og vinnumarkaðsráðherra segir staðfest að kerfisbundnu andlegu ofbeldi og líkamlegu ofbeldi hafi verið beitt gegn ungmennum á vistheimili að Laugalandi í Eyjafirði. Löggjöf hafi breyst frá því þá og koma verði í veg fyrir að sögur sem þessar endurtaki sig.

Félags- og vinnumarkaðsráðherra segist sannfærður um að brot gegn stúlkum sem fjallað er um í skýrslu um vistheimilið Laugaland séu sannleikanum samkvæmt. Nýta þurfi skýrslu um atvik á heimilinu til að læra af.

Um sextíu og fimm stúlkur og nokkrir drengir voru í vist að Varpholti og Laugalandi í Eyjafjarðarsveit árin 1997 til 2007. Frásagnir af andlegu ofbeldi og harðræði hafa komið fram.  Félags- og vinnumarkaðsráðherra  telur mikilvægt að koma í veg fyrir að saga sem þessi geti endurtekið sig.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra.
„Þegar ég sé niðurstöður skýrslunnar þá lít ég svo á að þarna hafi verið pottur brotinn svo sannarlega. Við sjáum meðal annars að þarna er staðfest meðal annars kerfisbundið andlegt ofbeldi sem er verið að beita. Það er líka staðfest að þarna urðu stúlkur fyrir líkamlegu ofbeldi.“


Guðmundur Ingi segir að nánar verði farið yfir skýrsluna með tilliti til þess hvað megi bæta almennt í eftirliti með starfsemi ólíkra heimila.

„En ég vil þó taka fram að það hefur margt breyst í löggjöfinni frá því að þetta var.  Meðal annars að við erum búin að greina betur á milli rekstraraðilanna og eftirlitsins. Meðal annars að við erum búin að greina betur á milli rekstraraðilanna og eftirlitsins. Þetta var allt á hendi sömu eftirlitsstofnunarinnar áður.“