Kvikmyndagerðamenn furða sig á niðurskurði á framlögum til kvikmyndagerðar í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Á sama tíma fá erlendir kvikmyndaframleiðendur endurgreidd 35 prósent af framleiðslukostnaði. Íslenskur leikstjóri segir að þetta sé þvert á stjórnarsáttmála og stefnu stjórnvalda í kvikmyndagerð.

Menningar- og viðskiptaráðherra tilkynnti á sunnudag um stærsta kvikmyndaverkefni sem unnið hefur verið hér á landi, sjónvarpsþættina True Detective úr smiðju HBO. Þættirnir skarta meðal annars Óskarsverðlaunaleikkonunni Jodie Foster. Ráðgert er að þeir verði níu mánuði í tökum og umfangið er metið á níu milljarða íslenskra króna. HBO á rétt á endurgreiðslu af 35 prósentum af framleiðslukostnaðinum.

Á sama tíma er hins vegar gert ráð fyrir miklum niðurskurði á framlögum til íslenskrar kvikmyndagerðar í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi. Samkvæmt frumvarpinu lækkar fjárheimild Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasjóðs alls um rúmlega 480 milljónir milli ára. Þó ber að geta þess að framlagið var hækkað í faraldrinum. 

Ragnar Bragason, leikstjóri og formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra segir að þó þetta séu tveir ólíkir hlutir þá sé vegferð stjórnvalda í þessum málum undarleg. „Það lítur þannig út í fjárlögunum að það sé verið að  fjármagna þessa 35 prósenta aukningu í endurgreiðslu með niðurskurði á Kvikmyndasjóði.“

Verðum af stórum verkefnum á næstu árum

Ragnar segir að endurgreiðslan gagnist fyrst og fremst erlendum þjónustuverkefnum sem komi ekki í staðinn fyrir íslenska kvikmyndagerð. Hann hefur ekki áhyggjur af að True Detective-verkefnið komi í veg fyrir að hægt verði að sinna öðrum íslenskum kvikmyndaverkefnum meðan á tökum þess stendur. Hægt sé að halda úti fleiri stórum verkefnum á sama tíma.

Verði raunin sú að skorið verði verulega niður til Kvikmyndasjóðs sé það menningarslys. „Ég hef meiri áhyggjur af því hvernig íslensk kvikmyndagerð lítur út eftir eitt, tvö, þrjú ár ef þessi niðurskurður á sér stað. Við verðum af einu til tveimur stórum íslenskum kvikmyndaverkefnum bara á næsta ári við þennan niðurskurð.“

Ragnar segir að svo virðist vera sem að viðskiptahlutinn sé ráðandi í ákvörðun menningar- og viðskiptaráðuneytisins fremur en íslenskar menningarafurðir. „Ein stór erlend sjónvarpsþáttaröð sem kemur hér til framkvæmda telst ekki til íslenskrar menningarverðmæta. En ein lítil kvikmynd sem framleidd er á Íslandi er hluti af okkar sögu og hefur mjög víðtæk áhrif.“

Gott að öllu leiti

Þorvarður Björgúlfsson, framkvæmdastjóri og eigandi KUKL, stærstu tækjaleigu landsins segir að True detective verkefnið skipti sköpum fyrir kvikmyndagerð á Íslandi og skapi hundruð starfa. „Þessi peningur kemur inn í hagkerfið og nýtist öllum. Það gætir ákveðins misskilnings að það sé verið að gefa einhverja þrjá millljarðar til baka. Þetta snýst ekki um það, þetta snýst um það að við fáum níu milljarða inn í hagkerfið og þeir koma á allar starfsstéttir landsins ef svo má segja. “

Hann bætir því við að þetta sé ekki fjárfesting þar sem menn hagnist og taki fjárfestinguna til baka út úr þjóðfélaginu heldur sé peningnum eytt í neyslu. Þá skipti miklu máli að verkefnið sé til langs tíma sem skapi mannskapandi störf fyrir fólk í stéttinni.

Ekki niðurskurður að sögn ráðuneytisins

Í tilkynningu sem menningarmálaráðuneytið sendi frá sér í gær segir að framlög til Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasjóðs séu í takt við framlög fyrri ára þrátt fyrir fyrrgreinda aðhaldskröfu.