Forstjóri Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála segir að þrátt fyrir margar eftirlitsheimsóknir barnaverndaryfirvalda á Laugaland virðist ekki hafa vaknað grunur um illa meðferð á börnum. Kona sem dvaldi á heimilinu segist ekki hafa þorað að gagnrýna meðferðina því það hafi farið beint til forstöðumann sem hafði brugðist illa við.

Um 65 unglingsstúlkur og nokkrir drengir voru vistuð á Varpholti og Laugalandi í Eyjafjarðarsveit á árunum 1997 til 2007. Í gær var birt niðurstaða úttektar um meðferðarheimilið. 

„Það sem er kannski alvarlegast er auðvitað þetta andlega ofbeldi. Það er staðfest. Harðræði, óttastjórn og þessi neikvæðu viðhorf sem ríktu í garð barnanna og þau upplifðu,“ segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Refsað en ekki unnið úr áföllum 

Þá hafi forstöðuhjónin sem ráku meðferðarheimilið ekki haft fagþekkingu á að vinna með börnum eða vinna úr áföllum. Hegðun barnanna, sem hafi verið sprottin af áfallasögu þeirra, hafi verið meðhöndluð með refsingum - en ekki unnið úr áföllunum.

Dagný Rut Magnús­dótt­ir, sem dvaldi á Laugalandi sem barn, upplifði bæði ótta og lítilsvirðingu. „Þú fékkst einhvern veginn að finna að þú værir ógeðslegur og ég veit það ekki. Maður upplifði einhverja svona fyrirlitningu. Það gerðist einu sinni að hann tók vel á mér og það endaði þannig að ég hrundi niður stiga,“ segir Dagný.

Áfall ofan í áfall

„Langflest börnin sem komu til dvalar þarna voru með erfiða áfallasögu. Þess vegna er það svo hryggilegt og hryggilegra en tárum taki að þau skuli fara í enn eitt úrræðið sem á að hjálpa þeim en verða fyrir andlegu ofbeldi þar og niðurbroti. Þannig að það má segja að það hafi bætt í vandann sem var fyrir,“ segir Herdís.

Í skýrslunni kemur fram að börnin á heimilinu treystu ekki þeim sem sinntu eftirliti með heimilinu, þeirra á meðal þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu, vegna tengsla þeirra við forstöðuhjónin. 

Fóru saman út að borða

Þau sem dvöldu á Laugalandi segja að það sem þau hafi sagt forstjóranum og barnaverndarfulltrúa hafi farið beint til forstöðumanns heimilisins en ekki lengra. Forstjóri Barnaverndarstofu og forstöðumaður heimilisins hafi verið félagar og farið saman út að borða. 

„Sjálf talaði ég einu sinni við sálfræðing þarna og allt sem ég sagði fór í forstöðumanninn og það fór ekki vel í hann. Ég tjáði mig aldrei meira um neitt sem þarna gekk á,“ segir Dagný.

Tíu sinnum kvartað

Tíu kvartanir bárust Barnaverndarstofu vegna heimilisins. Þá kvartaði barna- og unglingageðdeild Landspítala og umboðsmaður barna. Þá var ráðherra tvívegis látinn vita af kvörtunum, árin 2001 og 2002. 

Mikilvægt að „forða málinu frá kastljósi fjölmiðla“

Forstjóri Barnaverndarstofu fékk afrit af þeim og segir í skýrslunni að hann hafi næsta dag sent ráðherra minnisblað og lagt „áherslu á mikilvægi þess að forða málinu frá kastljósi fjölmiðla til að hlífa forstöðuhjónunum og börnum þeirra við frekari sársauka.“

„Þó svo að það hafi verið virkt eftirlit allan tímann, þá virðist það ekki hafa vakið grunsemdir. Þarna voru færslu í fundargerðabækur og dagbækur sem báru vott um neikvæð viðhorf í garð barnanna,“ segir Herdís.

Fréttastofa hafði samband við Ingjald Arnþórsson sem var forstöðumaður meðferðarheimilisins Laugalands en hann vildi ekki veita viðtal.