Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum varð í þriðja sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í dag og tryggði sér örugglega sæti í úrslitunum á laugardag. Stelpurnar segjast þó eiga mikið inni og að þær eigi eftir að toppa sig.
Íslenska liðið fékk 16,050 stig fyrir æfingar á trampólíni, 18,450 fyrir gólfæfingarnar og 16,550 á dýnu. Samtals urðu það 51,050 stig sem skilaði þeim þriðja sætinu á eftir Svíum og Dönum. 1,625 stigum munaði á íslenska liðinu og því sænska sem endaði efst.
„Okkur leið mjög vel, stóðum okkur mjög vel en eigum fullt inni allavega fyrir laugardaginn,“ segir Guðrún Edda Sigurðardóttir, landsliðskona.
„Við byrjuðum á trampólíninu og lentum flest allt þar, minnir mig, maður er smá út úr því. En við fengum eitt stökk ekki gilt en það er allt í góðu með það, þetta var bara eins og æfing fyrir okkur. Við ætlum bara að negla þetta á laugardaginn.“
Guðrún Edda segir að liðinu hafi liðið vel eftir dansinn en hópurinn hafi þó verið örlítil ósáttar með einkunnina á áhaldinu, sem hefur lengi verið helsti styrkleiki íslenska liðsins. Lægri einkunn þýðir hins vegar að það er meira rými til bætinga í úrslitunum sjálfum á laugardag. „Við eigum svo mikið inni og við eigum eftir að toppa okkur þá,“ segir Guðrún Edda að lokum.
Viðtalið við Guðrúnu Eddu og svipmyndir af undanúrslitunum í dag má sjá í spilaranum hér efst á síðunni.