Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist líta á fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í byrjun vikunnar sem ögrun og býst við að það leiði til harðari átaka í kjaraviðræðum en ella hefðu orðið.
„Við í Eflingu höfum verið að skoða frumvarpið og getum ekki séð það öðruvísi en sem mikla ögrun núna í aðdraganda kjarasamninga. Það er aðhald boðað í þessu fjárlagafrumvarpi og staðreyndin er sú að þarna eru útgjöld ríkisins aukin mun minna en sem nemur verðbólgu þessa árs og næsta árs,“ sagði Sólveig Anna í Morgunútvarpinu á Rás tvö.
Hún telur frumvarpið hafa mikil áhrif á kjaraviðræðurnar.
„Við sjáum þetta sem blauta tusku í andlitið á vinnuaflinu sem hér heldur öllu uppi og er gjörsamlega ómissandi, skapar hagvöxtinn og heldur umönnunarkerfunum uppi með vinnu sinni. Þannig þetta auðvitað bara þýðir það að átökin verða eflaust harðari en þau hefðu annars orðið.“
Viðtalið má heyra í spilaranum hér að ofan.