Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir alla í stjórn flokksins sorgmædda og harmi slegna yfir frásögnum kvenna sem skipuðu sæti á lista flokksins í bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri í vor. Konurnar sem skipuðu annað, fjórða og fimmta sæti á lista flokksins segjast hafa verið lítilsvirtar og hunsaðar af ónefndri karlaforystu og aðstoðarmönnum þeirra. Stjórn Flokks fólksins fundar nú vegna málsins.
„Það er ömurlegt að vera komin í þessa stöðu að þurfa að vera að fjalla um svonalagað þegar við unnum stórkostlegan sigur á Akureyri,“ sagði Inga Sæland í viðtali í sjónvarpsfréttum.
Hún segir ekki búið að taka ákvörðun hvort mönnunum verði vísað úr flokknum. Málið sé yfirgripsmikið, stjórnin sé með gríðarlegt magn af gögnum sem eigi enn eftir að fara yfir. „Eitt er alveg víst að við munum alltaf standa með þolendum ef það er niðurstaðan.“
Ásakanirnar séu trúverðugar en Inga á ekki von á niðurstöðu á fundinum í kvöld. Viðtalið við Ingu Sæland er í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Jón Hjaltason, sagnfræðingur, sem skipaði þriðja sæti á lista flokksins segir þá Brynjólf Ingvarsson, oddvita og bæjarfulltrúa flokksins, ætla að fara fram á lögreglurannsókn á þessum ásökunum kvennana.
„Við viljum fá að vita um hvað ræðir og hverja ræðir. Því það kemur í rauninni ekki fram, þótt það megi náttúrulega lesa á milli lína, að það eru karlpungarnir á listanum sem eru þarna að brjóta af sér. Þá er ekkert um marga að ræða. Þótt að við séum ekki nefndir á nafn er greinilegt að spjótunum er beint gegn okkur,“ sagði Jón Hjaltason í samtali við fréttastofu fyrr í kvöld.
Jón á ekki sæti í stjórn Flokks fólksins en er ósáttur við að fá ekki að sitja stjórnarfundinn í kvöld. „Okkar hlið skal ekki koma fram með einu né neinu. Það virðist bara eiga að afgreiða, dæma og krossfesta.“
Viðtalið við Jón Hjaltason má sjá í heild sinni hér að neðan.