Í gagnaverinu Borealis Data Center við Blönduós er unnið að byggingu áttunda hússins undir tölvur með mjög öfluga reiknigetu. Í framtíðinni er stefnt á að hýsa ofurtölvur sem gætu fundið lausnir á stórum vandamálum, til dæmis umhverfisvá.

Nýtt hús hentar þeim sem þurfa að reikna mjög mikið

Helsta hlutverk gagnavera er að geyma og reka tölvubúnað, auk þess að veita ýmsum viðskiptavinum þjónustu. Í nýju byggingunni verður unnið með mjög öfluga reiknigetu sem kallast HPC og hentar viðskiptavinum sem þurfa að reikna mjög mikið. „Ég held að þetta nýja hús sé að gera okkur kleift að veita slíka þjónustu betur og þetta hús er að fókusa á aukið öryggi þannig að við erum með hærri uppitíma í því heldur en í eldri húsunum þannig að þetta leyfir okkur að taka inn kúnna með þesslags þarfir,“ segir Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis Data Center.

Ofurtölvurnar með mikinn orkuþéttleika

Dæmi um viðskiptavini eru upplýsingatæknifyrirtæki, bankar, rannsakendur, bílaframleiðendur og þeir sem vinna með gögn. Undirbúningur er hafinn að innleiðingu ákveðinna öfurtölva í gagnaverið. „Það eru tölvur sem geta reiknað mjög mikið, þær eru með mikinn orkuþéttleika þannig að þær reikna mikið á hvern fermetra sem þær standa á og eru til þess gerðar að reikna erfiðustu og flóknustu vandamálin sem við stöndum frammi fyrir í dag.“

Vandamál á borð við?

„Það getur verið allt frá því að finna lausnir á umhverfisvá yfir í að optimisera þotuhreyfil.“

„Allt í einu er rok og rigning orðið að auðlind sem við getum nýtt“

Í dag starfa um tuttugu manns í gagnaverinu þar af um helmingur á Blönduósi. Fyrirtækið hefur umsjón með um þrjátíu þúsund tölvuþjónum, sem er umfangsmikil starfsemi, og því er mikið lagt upp úr umhverfisvænni orkunýtingu. „Þar hentar Íslandi mjög vel. Hér þarf minna að kæla, tölvur búa til mikinn hita þegar þær vinna, hér getum við notað þessar náttúrulegu aðstæður sem við höfum. Allt í einu er rok og rigning orðið að auðlind sem við getum nýtt.“