Sagnfræðingurinn Jón Kristinn Einarsson gaf nýlega út bókina Jón Steingrímsson og Skaftáreldar. Þar kemst hann að nýjum niðurstöðum byggðum á ónýttum samtímaheimildum.

Jón Steingrímsson, eða Jón eldklerkur eins og hann hefur verið kallaður, var prófastur yfir Skaftafellsþingum þegar að Skaftáreldar dundu yfir. Eldarnir voru miklar hamfarir sem höfðu áhrif á allt landið árin 1783-1784. Jóni var treyst fyrir því að flytja innsiglaðan pakka frá Bessastöðum að Vík í Mýrdal sem innihélt 600 ríkisdali. Peningarnir áttu að nýtast sem eins konar neyðaraðstöð á hamfarasvæðinu en aðeins helmingur þeirra barst á leiðarenda. Þetta olli talsverðum vandræðum fyrir Jón eldklerk en sagnfræðingurinn Jón Kristinn hefur nú komist að nýjum niðurstöðum um hvaðan þessir peningar komu og um átök íslenskra embættismanna og danskra háembættismanna um auðinn. Hann ræddi við Síðdegisútvarpið á Rás 2 um Jón Steingrímsson og Skaftárelda. 

Eldklerkurinn flúði ekki  

Jón Steingrímsson prestur var Skagfirðingur sem fluttist suður eftir í Mýrdal og gerðist þar prestur. Hann var prófastur yfir Skaftafellsþingum og bjó á Prestbakka þegar að Skaftáreldar dundu yfir Suðurland frá júní 1783 til febrúar 1784. „Hann er eini presturinn sem flýr ekki hamfarirnar heldur stendur, býr áfram í Prestbakka og aðstoðar sitt sóknarfólk,“ segir Jón Kristinn.  

Jóns eldklerks er minnst fyrir margt. „Í fyrsta lagi er það eldmessan 20. júlí 1783 þegar hann á að hafa varnað því að hraunflæði frá Skaftáreldum grandaði Kirkjubæjarklaustri.“ Eftir hann liggja líka merk rit, meðal annars sjálfsævisaga hans sem er einstök heimild um líf fólks á 18. öld og eldrit sín, sérstaklega eldrit hans frá 1788 sem er greinagóð lýsing á Skaftáreldum.  

Íslendingum fækkaði um 20% í hamförunum  

Skaftáreldar dundu yfir Suðurland árin 1783-84 og af þeim hlutust hin svokölluðu Móðuharðindi. „Þetta er flæðibasaltgos sem á sér stað á sprungu norður af Síðu í óbyggðum í Vestur-Skaftafellssýslu,“ útskýrir Jón Kristinn. Hann segir gosið hafa verið öflugt og umtalsvert hraunflæði flætt yfir Síðuna og byggð þar í kring. „En það er líka mikil móða og gjóska frá þessu eldgosi. Hún leggst yfir Ísland og Evrópu sumarið 1783.“ Móðuharðindin og Skaftáreldar voru ekki aðeins Íslandssögulegur atburður heldur heimssögulegur. „Jarðfræðingar telja að Skaftáreldar hafi valdið kólnun á öllu norðurhveli jarðar í nokkur ár eftir að þau áttu sér stað.“ 

Hamfarirnar á Íslandi voru stórvægilegar. „Það er talað um að allavega helmingur búpenings á Íslandi hafi drepist, annaðhvort af hungri eða af eitrun.“ Allt hafði þetta áhrif á líf fólks í landinu. „Í kjölfarið af því deyr töluvert af fólki úr hungri en líka úr farsóttum sem skella á.“ Jón Kristinn segir að viðnámsþróttur Íslendinga hafi verið skertur vegna hungursneyðar og vosbúðar.  

„Þetta eru sennilega verstu hamfarir í Íslandssögunni,“ segir Jón Kristinn. Íslendingum fækkaðu um 20% á árunum 1783-86, úr 49 þúsund í 39 þúsund.  

Neyðaraðstoðin rataði ekki alla leið  

Jóni eldklerki var treyst til að flytja 600 ríkisdali í innsigluðum pakka frá Bessastöðum suður að Vík í Mýrdal sumarið 1784. Þetta var mikil svaðilför fyrir Jón og samferðamenn hans því aðstæður voru mjög erfiðar eftir hamfarirnar sem höfðu dunið á landinu. Peningana átti að nýta til uppbyggingar á svæðunum sem höfðu orðið verst undan í hamförunum. „Jón í félagi við aðra embættismenn opnar þennan böggul á leiðinni. Þeir deila út fé til fólks, bæði til annarra og sín sjálfra. Þegar að Jón kemst á leiðarenda til Víkur er um helmingur fjárins eftir í bögglinum. Af þessu verður heilmikið mál.“ 

Það hefur alltaf verið talið að þessir fjármunir hefðu komið sem neyðaraðstoð frá Dönum. „Þetta hefur verið haft upp úr sjálfsævisögu séra Jóns.“ Niðurstaða rannsókna Jóns Kristins hefur þó leitt annað í ljós. Efnt var til fjársöfnunar í Kaupmannahöfn og öllu dansk-norska ríkinu veturinn 1783-4 en þeir fjármunir bárust ekki til landsins fyrr en töluvert síðar. „Þegar að heimildir frá sumrinu eru kannaðar kemur í ljós að þessir peningar eru ekki úr þessari söfnun heldur úr sjóði tukthússins við Arnarhól.“ 

Þessar niðurstöður sýna að viðbrögð Dana voru svifaseinni en sagnfræðingar hafa áður haldið.  „Ég held að þessi fjársöfnun hafi aðallega verið ætluð til að reisa landið við eftir þessi harðindi frekar en sem einhvers konar bráð neyðarhjálp.“ Mest af peningunum sem safnað var í fjársöfnuninni varð eftir í Kaupmannahöfn. „Hann verður að hinum svokallaða Kollektusjóði sem er í Kaupmannahöfn alla 19. öldina og er notaður til þess að byggja Lærða skólann og sitthvað fleira og kemur loksins til landsins 1871 með Stöðulögunum svokölluðu þegar fjárhagur Íslands og Danmerkur er aðskilinn.“ 

Aðför eða pólitík? 

Jón Kristinn hefur komist að ýmsum niðurstöðum sem eru á skjön við það sem áður var haldið. Hann hefur nýtt sér vannýttar heimildir frá 18. öld í rannsóknum sínum. „Það tekur svolítinn tíma að komast inn í þær. Ég naut mjög góðrar aðstoðar, þessi bók er byggð á BA-verkefni sem ég skrifaði undir leiðsögn Más Jónssonar prófessors í sagnfræði, hann aðstoðaði mig við að komast inn í þennan skjalaheim.“  Hann segir að þessar heimildir séu margar á dönsku og skrifaðar í fljótaskrift. „Maður þarf eiginlega að læra að lesa upp á nýtt til að komast inn í þær. Þegar að maður er búinn að því tekur við mikill fjársjóður sem er að mörgu leyti ónýttur og bíður þess að vera kannaður.“  

„Það er ekki ætlunin að fara beint að andmæla því sem áður hefur verið sagt heldur að koma að þessu frá öðrum vinkli,“ segir Jón Kristinn sem nýtti bréfaskriftir sem ganga sumarið 1784 í bland við kvittanir og ýmislegt sem séra Jón skildi eftir sig til að komast nærri prófastinum. „Hann var mjög litríkur bréfritari. Hann skrifaði ekki leiðinlegt eða tyrfið embættismál, hann var tilfinningaríkur.“ 

Í sjálfsævisögu sinni lýsir séra Jón upplifun sinni af þeim vandræðum sem komu upp eftir að ríkisdalirnir komust ekki allir á leiðarenda. „Hans lýsing er á þá leið að þetta hafi verið persónuleg aðför gegn honum, að menn hafi verið í miklu samsæri gegn honum og svikið hann.“ Í heimildum kemur þó í ljós að annað og meira hafi legið að baki. „Það sem kemur í ljós í þessum heimildum er að þetta eru átök milli íslensku embættismannanna annars vegar og dönsku háembættismannanna hins vegar.“ Dönsku embættismennirnir voru fulltrúar dönsku miðstjórnarinnar, ekki síst stiftamtmaður sem var eins konar forsætisráðherra þess tíma og þessir menn blönduðu sér í þjóðmál á Íslandi. „Þetta er miklu meiri pólitík en menn hafa haldið áður,“ segir Jón Kristinn.  

Rætt var við Jón Kristinn Einarsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hlusta má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.