Ný ríkisstjórn Bretlands er að taka á sig mynd eftir að Liz Truss tók við embætti forsætisráðherra af Boris Johnson í morgun. Í fyrsta sinn er ekkert af stærstu embættunum skipað hvítum karlmanni.

Liz Truss var tekið fagnandi þegar hún hélt í Downing-stræti 10 síðdegis, í fyrsta sinn sem forsætisráðherra. Stjórnmálaskýrendur eru sammála um að fáir forsætisráðherrar hafi tekið við embætti á jafn erfiðum tímum og Truss. Hún lofar að taka strax til hendinni. Í ræðu sinni boðaði hún mikla uppbyggingu, skattalækkanir og aðgerðir í efnahags- og orkumálum. 

Ekki leið á löngu þar til þingmenn tóku að streyma inn í Downing-stræti. Truss hefur í kvöld skipað fjölda ráðherra og í fyrsta sinn er ekkert þeirra embætta, sem í breskum fjölmiðlum eru kölluð mikilvægustu embættin, skipað hvítum karlmanni. Suella Bravermann verður innanríkisráðherra, Kwasi Kwarteng fjármálaráðherra og James Cleverly utanríkisráðherra. Truss er fimmtándi forsætisráðherrann í valdatíð Elísabetar Englandsdrottningar og hún er líka fjórði forsætisráðherrann í tíð kattarins Larry, sem hefur staðið vaktina í Downingstræti frá 2011.