Spár vísindamanna um að ákefð í ofsaveðri aukist hafa raungerst í Pakistan, þar sem mikil flóð geisa. Þetta kom fram í máli Guðfinnu Th. Aðalgeirsdóttur, prófessors í jöklafræði, í viðtali í sjónvarpsfréttum í kvöld. Hún er einn aðalhöfunda skýrslu sérfræðihóps milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem kom út í fyrra.
Það sem er að gerast í Pakistan, er það ekki nákvæmlega það sem sérfræðingar hafa verið að spá og vara við? „Jú, það er alveg rétt og þessi skýrsla sem hefur komið út nokkrum sinnum á síðustu áratugum hefur dregið upp nokkrar sviðsmyndir sem sýna einmitt að ákefð í ofsaveðri mun aukast og þar með talið rigningar eins og við sjáum í Pakistan en líka aukin ákefð í hita og þurrkum,“ segir Guðfinna.
Um sjö þúsund jöklar eru í Pakistan og þeir bráðna en eru þó ekki aðalörsök hamfaranna nú. Guðfinna segir að mikil ákefð sé í rigningum og í raun monsúnrigningar á sterum, eins og framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres lýsti ástandinu í dag. „Þannig að þetta eru miklu meiri rigningar en hafa verið en jöklabráðnunin kemur til viðbótar en hún er tiltölulega lítill hluti af þessum flóðum núna.“
Sameinuðu þjóðirnar reyna að safna milljörðum fyrir íbúa Pakistans þar sem einn af hverjum sjö á um sárt að binda vegna hamfaraflóðanna. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að heimsbyggðin megi ekki lengur fljóta sofandi að feigðarósi á meðan loftslagsbreytingar leggja jörðina rúst.