Talsmenn Úkraínuhers tilkynntu í dag að stórsókn væri hafin í átt að borginni Kherson, í suðurhluta Úkraínu. Rússar náðu borginni á sitt vald aðeins nokkrum dögum eftir að innrás þeirra í Úkraínu hófst í febrúar. Úkraínumenn sögðust í dag hafa eyðilagt stóra herstöð Rússa nálægt Kherson og hafið sókn á fjölmörgum stöðum á víglínunni á þessu svæði.

Friðrik Jónsson, sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum og fyrrum hermálafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, segir að beðið hafi verið eftir tíðindum af gagnsókn Úkraínuhers og að athyglisvert verði að sjá hvernig hún gangi. „Kherson er réttu megin við Dnipro ána, ef svo má segja, vestan megin þannig að það ætti að hjálpa til. Síðan er að sjá hvernig Rússar mæta þessu. Það verður að hafa í huga að hefðbundið er að gagnárás af þessu tagi er erfiðari en að verjast,“ sagði Friðrik í viðtali í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum í kvöld. Rússar séu væntanlega búnir að koma sér vel fyrir en Úkraínumenn þó búnir að undirbúa jarðveginn töluvert.

Úkraínumenn hafi skemmt brýr svo það hafi verið erfitt fyrir Rússa að flytja hergögn. Þá hafi þeir sprengt upp herstöðvar, vistageymslur og annað. „Þannig að jarðvegurinn ætti að vera nokkuð vel undirbúinn fyrir þessa gagnárás og svo er að sjá hvernig þeim gengur,“ segir Friðrik. Eins þurfi að horfa til þess að Úkraínumenn vilji senda þau skilaboð til úkraínsku þjóðarinnar að þeir hafi mátt í gagnsókn sem þessa. Eins þurfi þeir að senda skilaboð til alþjóðasamfélagsins um að þeir geti þetta. Svo séu þeir að senda skilaboð til Rússa. 

Rússnesk yfirvöld hafa sagt fregnir af sprengjum og gagnsókn falsfréttir, ekkert slíkt sé að gerast. „Við erum vön því að allt það sem frá Rússum kemur er einhvern veginn í fullkominni andstöðu við raunveruleikann,“ segir Friðrik.  „Þannig að ef þeir segja að það sé ekkert að gerast þá er nokkuð ljóst að þá er greinilega eitthvað mikið að gerast.“ 

Hvernig metur þú möguleika Úkraínumanna á að brjóta her Rússa á bak aftur á þessu svæði? „Á þessu svæði, og það er sennilega þess vegna sem það er valið, ætti það að vera ákveðinn möguleiki. Það er erfitt að koma með aðföng. Það er búið að sprengja upp brýr og herstöðvar. Þetta er suðurfrá í áttina að ströndinni við Svartahaf. Það sem gæti sett strik í reikninginn er samt nálægðin við Krimskaga en það var einmitt líka búið að sprengja upp herstöðvar þar. Þannig að þetta er áhugavert frá mjög mörgum vinklum og það verður athyglisvert að sjá hvernig Úkráinumönnum annars vegar gengur hvort þeir nái árangri. Hvort þeim tekst að halda því sem þeir ná fram og svo að sjálfsögðu hver viðbrögð Rússa verða og hvernig þeim gengur að hrinda þessari gagnsókn.“