Jón Ólafsson prófessor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands segir að ákvörðun Menningarmálaráðherra að ráða þjóðminjavörð án auglýsingar jaðri við misbeitingu á valdi. Til að byggja upp traust þurfi að gæta sanngirni, hvaða möguleika fólk hefur til dæmis á því að keppa um æðstu stöður samfélagsins.

Nokkur fagfélög hafa undanfarna daga gagnrýnt ákvörðun menningar- og viðskiptaráðherra um að ráða Hörpu Þórisdóttur í embætti þjóðminjavarðar án þess að auglýsa starfið. Meðal annars Félag fornleifafræðinga og Félag íslenskra safna og safnmanna.

Í tilkynningu um ráðninguna á stjórnarráðsvefnum kemur fram að ráðherra hafi nýtt heimild um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins til að flytja embættismenn milli stofnana.

„Þarna er ráðherra að túlka þessa heimild til að færa fólk innan stjórnsýslunnar sem svo, að hún geti bara skipað hvern sem er úr stjórnsýslunni, í hvaða starf sem er. Það er að mínu mati ekki réttur skilningur á þessu. Ég held að það sé, alveg burt séð frá hvaða hæfileika og reynslu þessi tiltekni einstaklingur kann að hafa. Þá er það alveg rosalega varhugavert og er í rauninni, ég myndi segja, jaðrar við misbeitingu á valdi,“  segir Jón Ólafsson prófessor við Hugvísindasvið HÍ.

Grefur undan trausti til stjórnmálanna

Jón var formaður starfshóps sem skipaður var af forsætisráðherra um hvernig væri hægt að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. „Það grefur undan trausti almennings á stjórnvöldum, þegar ráðamenn skilja ekki alveg að það þarf að vinna með samfélaginu. Ekki bara ákveða fyrir samfélagið hvernig hlutirnir eiga að vera. Það sem er svo mikilvægur hluti af því að byggja upp traust, er gagnsæi og sanngirni í því hvaða möguleika fólk hefur. Þar á meðal um að keppa um æðstu stöður samfélagsins.“

Ráðamenn þurfi að horfa í eigin barm

Þrír af fjórum ráðuneytisstjórum sem hafa verið ráðnir á þessu ári hafa líka verið skipaðir án auglýsingar. Jón segir að það sé eðlilegra, heimildin til að færa fólk til í starfi sé til þess fallin að auka starfsþróunarmöguleika starfsmanna stjórnsýslunnar, eins og ráðuneytisstjóra. En vegna eðlis starfs þjóðminjavarðar gegnir skipun hans öðru máli. „Heimildin sjálf tel ég að sé mjög góð. Stundum held ég að svona tilfærslur séu gagnrýndar af ósekju. Stundum eru þær alveg eðlilegar og mjög góðar. En þarna er komið tilfelli sem svo er ekki. Þarna þurfa ráðamenn að horfa í eigin barm.“

„Þetta vekur þá spurningu hvort við þurfum virkilega alltaf að hafa mjög þröngar reglur. Hvort við getum virkilega ekki búið í samfélagi sem að einfaldlega treystir ráðamönnum til að treysta dómgreind sinni rétt og átta sig á því hvenær eðlilegt er að beita valdheimild og hvenær ekki.“