Heiða Björg Hilmisdóttir hefur verið kjörinn formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sambandinu hefur verið stýrt af Sjálfstæðismönnum síðustu þrjátíu ár.
Fjármálin sérstök áskorun
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði og oddviti Sjálfstæðisflokksins, bauð sig sig einnig fram. Mjótt var á munum. Heiða Björg hlaut 76 atkvæði eða rúm 51% og Rósa einungis þremur færri.
Heiða Björg tekur við formennsku á landsþingi í lok september.
„Það eru auðvitað gríðarlegar áskoranir, sérstaklega hvað varðar fjármálin en líka hvað varðar húsnæðismál, málaflokks fatlaðs fólks, grunnskólann og móttöku flóttafólks. Það eru stór mál núna sem sveitarfélögin eru að takast á við sem eru mjög mikilvæg fyrir íslenskt samfélag að takist vel til. Ég finn að það er mikill áhugi á því að við breytum smá um takt og ég fann hljómgrunn fyrir þeim vinnubrögðum sem ég var að tala um.“
Fyrsti formaðurinn sem er ekki sjálfstæðismaður
Heiða Björg er fyrsti formaðurinn sem ekki kemur úr röðum Sjálfstæðismanna síðan stjórnmálamenn voru fyrst kjörnir til formennsku fyrir rúmum þrjátíu árum.
Hún tekur við af Aldísi Hafsteinsdóttur sem var kjörin fyrir fjórum árum. Hún var þá bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði.
Halldór Halldórsson var kjörinn árið 2006, hann var á þeim tíma bæjarstjóri á Ísafirði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.
Hann tók við af Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem var kjörinn árið 1990 og gegndi embættinu í sextán ár.
Heiða Björg er varaformaður Samfylkingarinnar og hefur setið í borgarstjórn fyrir flokkinn í níu ár. Hún segir óvíst hvað verður um störf hennar fyrir flokkinn.
„Það verður bara að koma í ljós. En þarna þarf maður að geta unnið með öllum og ég held að ég hafi sýnt það og sannað að ég get það og ég verð klárlega ekki formaður sambandsins sem einhver Samfylkingarkona. Ég verð bara formaður sambandsins fyrir allt sveitarstjórnarfólk og öll sveitarfélög.“