Forsætisráðherra stefnir á að hækka skatta á þá sem hafa fyrst og fremst fjármagnstekjur og tryggja þannig að þeir greiði útsvar til sveitarfélaganna. Þá segir hún að launaháir forstjórar landsins verði að sýna hófsemd í eigin kjörum og tala af ábyrgð.

Tveggja daga flokksráðsfundur Vinstri grænna á Ísafirði hófst í morgun með setningarræðu Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félagsmálaráðherra og varaformanns flokksins, sem sagðist vilja sjá aðra ríkisstjórn á næsta kjörtímabili. „En gleymum því heldur ekki að við erum líka í ríkisstjórn til að passa upp á að ákveðnir hlutir gerist ekki. Við erum varðhundar ákveðinnar hugmyndafræði og stöndum vörð um hana. Að þessu sögðu, þá er draumaríkisstjórnin mín með stjórnmálahreyfingum sem eru lengra til vinstri og grænni. Og, þar vil ég sjá okkur í framtíðinni.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra talaði fyrir breyttu skattkerfi. „Nú er kominn tími til að breyta því sem við höfum talað fyrir ansi lengi, það er að tryggja það sem þau sem fyrst og fremst hafa fjármagnstekjur að þau greiði útsvar til sveitarfélaganna eins og aðrir skattgreiðendur. Þessi vinna stendur nú yfir í fjármálaráðuneytinu. Um þetta erum við vinsri græn búin að tala um í að minnsta kosti síðan ég hóf þátttöku í þessari hreyfingu fyrir 20 árum og það skiptir gríðarlegu máli að grípa til þessara aðgerða því það er réttlætismál.“

Þá sagði hún að fram undan væri vinna við kjarasamninga og kallaði eftir því að atvinnurekendur sýni hófsemd í eigin kjörum og tali af ábyrgð. „Stjórnendur, fjármagnseigendur verða að sýna hófstillingu. Það er ekki hægt að segja við launafólk að það eigi að sýna ábyrgð í verðbólgunni þegar forstjórar sem höfðu í fyrra mánaðarlaun sem nema kannski 15 til 16 földum lágmarkslaunum á vinnumarkaði. Semsagt á sjöttu milljón, fá launahækkanir sem nema einum til tvennum lágmarkslaunum.“